143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:29]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Áðan afsalaði þingheimur sér með glöðu geði 3 milljarða tekjum frá atvinnugrein sem hefur aldrei haft það betra en jafnvel eftir að hún fór að borga þessi voðalegu veiðigjöld. Nú heyrum við frá ríkisstjórninni að hún hafi ekki einu sinni metnað til þess að tryggja atvinnulausum desemberuppbót og segi ekki til peninga fyrir henni.

Við fundum peninga til þessa verkefnis meira að segja fyrir jólin 2009. Við gerðum það 2010, 2011 og 2012. (Fjmrh.: Þið tókuð allt að láni.) Á sama tíma, hæstv. fjármálaráðherra, drógum við úr hallarekstri ríkissjóðs, tókumst á við það hrun (Gripið fram í.) sem Sjálfstæðisflokkurinn skildi eftir sig, og Framsóknarflokkurinn. [Háreysti í þingsal.] Það var ósköp einfaldlega þannig. Og við bættum tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs og gerðum ríkinu mögulegt að standa undir útgjöldum. (Forseti hringir.) (Gripið fram í: Þú gleymir einu …) Það er lykilatriðið. (Gripið fram í: Þú gleymir …) Það er lykilatriðið (Forseti hringir.) sem þessi ríkisstjórn verður að horfast í augu við. Þetta er hennar val og þetta er val þessa stjórnarmeirihluta.