143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:31]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hef einu sinni í þessum stól komið með þá tillögu að sett yrði af stað opinber rannsókn á því hverjir voru með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn 2007–2009. Eftir ræðu hv. þm. Árna Páls Árnasonar er spurning hvort maður geri það ekki að sérstöku þingmáli.

Mér finnst að stjórnarandstöðuflokkarnir sem voru í ríkisstjórn og gerðu þá áætlun sem liggur fyrir í Atvinnuleysistryggingasjóði ættu ekki að tala með þessum hætti. Komið hefur fram við umfjöllun nefndarinnar að áætlunin var ónóg og sömuleiðis voru þeir fjármunir sem voru í Atvinnutryggingasjóði, sem voru verulegir, nýttir í annað á sumarmánuðum.

Við eigum við það hér, eins og í öllu öðru, að áætlanirnar stóðust ekki, því miður. Þess vegna erum við í halla. Menn eru að taka lán fyrir hlutum vegna þess að endar ná ekki saman. Það fólk sem borgar þau lán er fólkið í landinu.