143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:40]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki trúa því að hæstv. félagsmálaráðherra láti í minni pokann varðandi desemberuppbót fyrir atvinnuleysingja. Ég trúi því ekki að nýir þingmenn stjórnarflokkanna ætli að stuðla að því að atvinnuleysingjar fái ekki desemberuppbót núna.

Ég bendi þingmönnum á að hlusta á viðtal á Bylgjunni í gær við fólk sem lýsti bágri stöðu sinni, fólk með 170 þús. kr. í atvinnuleysisbætur, hvernig það muni ekki geta haldið jólahátíðina, getur ekki veitt sér þann munað að gefa börnum sínum jólagjafir, hvað þá að halda upp á þessa miklu hátíð. Það er aumt að sjá að vegna 17 aðstoðarmanna þurfi hæstv. ríkisstjórn að fá mikla peninga til að borga þeim laun en á sama tíma nær hæstv. félagsmálaráðherra því ekki fram að fá þær 240 milljónir sem minni hlutinn (Forseti hringir.) leggur til að verði settar inn í desemberuppbót. (Forseti hringir.) Þetta er nýtt, þetta var gert á mesta krepputímanum. (Forseti hringir.) En þegar farið er að birta til, á það þá að vera verk núverandi ríkisstjórnar að svíkja þetta og koma ekki með þá peninga inn? (BirgJ: Minnum á að ráðherrar eru …)