143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:45]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við erum hér allnokkrir þingmenn og þar á meðal þingmenn Bjartrar framtíðar sem trúum því að eitt stærsta verkefni ríkisfjármála og þjóðfélagsins sé að afla tekna og að ein besta leiðin til að afla tekna í náinni framtíð og til langrar framtíðar sé að setja fé í rannsóknir, nýsköpun og þróun. Þess vegna var blásið til fjárfestingaráætlunar á síðasta kjörtímabili.

Það hefur vakið eftirtekt mína og margra annarra að það er nánast orðin sérstök pólitísk stefna hjá ríkisstjórninni, stjórnarmeirihlutanum, að reyna að koma í veg fyrir þessa áætluðu sókn til nýsköpunar og þróunar. Sóknin hefur mestmegnis verið afturkölluð. Það stóð til að afturkalla þessa sókn til rannsókna og nýsköpunar í fjáraukalögum sem voru tíðindi. En hér er ljóstíra. Hér er ákveðið að hætta við að hætta við, hætta við að skera niður þessa aukningu til Rannsóknasjóðs. Hér er sem sagt ríkisstjórnin að sjá að sér smá; og ég vona að við sjáum fleiri þannig tíðindi. En við styðjum þetta.