143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil taka fram að þessum fjármunum hafði ekki verið ráðstafað endanlega heldur var tekin sérstök ákvörðun um það milli umræðna að draga úr skerðingum og forgangsraða þegar dregið var úr sparnaðartillögum ríkisstjórnarinnar vegna ársins 2013, forgangsraða í þágu þessara sjóða. Það ætti ekki að koma neinum á óvart. Afkoman skánaði aðeins á tekjuhliðinni milli umræðna og það var ekki neitt ánægjuefni að leggja til að fallið yrði frá fyrri áformum um úthlutun úr Tækniþróunarsjóði og Rannsóknasjóði en í millitíðinni teljum við að svigrúm sé að skapast sem réttlæti að falla frá þessu og þá verður vonandi hægt að úthluta í samræmi við væntingar vegna umsókna á árinu 2013. Þetta hefur hins vegar ekkert með það að gera að tími skyndilausnanna sé liðinn, eins og hér kemur fram. Ég læt það reyndar koma mér á óvart að þingmenn Samfylkingarinnar — [Háreysti í þingsal.] sem studdu fjárfestingarsamning vegna álversins í Helguvík fyrir rétt rúmum fjórum árum síðan skuli nota þingið (Forseti hringir.) sem vettvang til að fagna því að illa gangi að klára verkefnið.