143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[13:04]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég kýs að líta á þetta sem jákvæð teikn um leið og ég harma skort á frekari jákvæðum teiknum hvað varðar framlög til rannsókna, nýsköpunar og þróunar. Ég harma það mjög að það er verið að bakka nánast alfarið með fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sem snerist um fjárfestingu í þessum greinum.

Við verðum að kunna að gera greinarmun á hefðbundnum útgjöldum, rekstrarútgjöldum, og fjárfestingum. Fjárfestingar geta verið skynsamlegar og óskynsamlegar. Ég held að það þyki alveg sýnt að fjárfestingar í Tækniþróunarsjóði, framlög ríkisins til hans, skili sér margfalt til baka í beinum framlögum í ríkissjóð og einnig í hálaunastörfum, fjölbreyttara atvinnulífi, meiri útflutningi — styrkari stoðum undir efnahagslífið. Þetta er skynsamleg fjárfesting.

Ég ætla að nota þetta tækifæri til að hvetja ríkisstjórnina til að setja fjárfestingaráætlunina (Forseti hringir.) aftur inn í fjárlög, þótt ekki væri nema bara varðandi þessa liði, framlög til rannsókna, nýsköpunar og þróunar.