143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[13:14]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mér finnst alltaf svolítið skrýtið þegar fólk er skammað fyrir að gera rétt, jafnvel þótt það hafi gert mistök þar áður, (Gripið fram í: Heyr, heyr.) þannig að ég ætla að láta það eiga sig að skamma hæstv. ríkisstjórn að þessu sinni. Ég vil bara nefna sérstaklega að þegar kemur að rannsóknum er svolítið erfitt að sjá fyrir fram nákvæmlega hvað muni koma út úr þeim. Það er eðli vísindarannsókna að maður veit ekki fyrir fram hvað gerist. Af þeirri ástæðu er ofboðslega mikilvægt að ríkið styðji við vísindarannsóknir umfram einkaaðila. Einkaaðilar þurfa að sjá fyrir fram hvað þeir ætla að gera og hvernig þeir ætla að hagnast. Þegar kemur að tækniþróun er það einfaldlega ekki alltaf sagan að verkefnið gangi upp og þess vegna er mjög mikilvægt að við styðjum við þennan mikilvæga málaflokk.

Því mun ég að sjálfsögðu greiða atkvæði með tillögunni og þakka hæstv. ríkisstjórn fyrir að sjá að sér.