143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[13:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Sú var tíðin að menn ræddu ekki fjáraukalög. Það var eiginlega bara ég sem stóð hérna, jafnvel sem stjórnarþingmaður, og nuddaðist í því að ekki væri allt ófyrirséð í fjáraukalögunum en þar eiga bara að vera ófyrirséð atriði og hér fjöllum við einmitt um ófyrirséða hlutann. En við fjöllum líka um stóraukningu á vaxtagreiðslum ríkissjóðs. Það er ástæðan fyrir því að ekki er til peningur fyrir öll þessi feiknagóðu mál sem menn hafa verið að mæla með hérna. (Gripið fram í.)

Það vantar pening, það er bara þannig. Það vantar pening í ríkissjóð til að standa undir öllum þessum góðu málum og alveg sérstaklega vantar pening fyrir vaxtagreiðslunum. Við Íslendingar erum að borga gífurlegar fjárhæðir í vaxtagreiðslur á ári hverju, óþolandi mikið, og við verðum að taka okkur tak og reyna að halda aga í fjármálum, reyna að gæta að útgjöldunum og greiða eingöngu það allra nauðsynlegasta. Ég segi já við þessari tillögu. (ÖJ: Það var ríkisstjórnin sem var ófyrirséð.)