143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[15:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrirspurn hv. þm. Helga Hjörvars setur mig í ákveðinn vanda. Ég er búinn að leita í öllum greinum frumvarpsins og nefndarálitsins og ég sé hvergi hvar þetta kemur beint við. Þetta er tekjuhlutinn. Auðvitað hefur þjóðhagsspá Hagstofunnar áhrif á umfang atvinnulífsins. Það má vel vera að einhverjar áætlanir um tekjur sem fjárlaganefnd fjallar svo um standist ekki. Ég sé ekki að það sem við erum að ræða hér hafi bein áhrif á það. Stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki held ég að breytist ekki. Verðlagsuppfærsla skatta og gjalda breytist ekki eða kostnaður við opinbert eftirlit, skráningargjaldið í háskóla, úrvinnslugjald eða eitthvað slíkt — ég sé ekki að það breytist neitt að ráði við þessi tíðindi en auðvitað eru þau ekki góð. Svo má vel vera að okkur falli eitthvað til til að nýta orkuna í annað, t.d. geymslu fyrir tölvuefni eða eitthvað slíkt. Það eru margir möguleikar. Margt hefur verið nefnt. Kannski fellur okkur eitthvað til til að nýta bæði aðstöðuna og orkuna í Helguvík.