143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[16:15]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er verið að draga úr með því að draga úr hámarkinu og það skiptir auðvitað máli að stærstu fyrirtækin sem eru í mesta rannsókna- og þróunarstarfinu geti nýtt sér tækifærin til fulls. Ástæðan fyrir því að framlögin verða svona há árin 2014 og 2015 er sú að meiri hlutinn komst ekki nógu bratt í að leggja viðbótarframlögin niður eins og við komumst að í umræðu um fjáraukalagafrumvarpið í dag. Hann situr uppi með fjárframlögin vegna þess að búið var að ráðast í samninga sem hann kemst ekki út úr. Vilji meiri hlutans stendur ekki til að þau séu svona há, þvert á móti.

Þegar menn segja að þeir hafi ekki peninga til hlutanna verður að setja það í samhengi við aðra þætti skattheimtu. Ég er búinn að rekja ítarlega árangurinn af fjárfestingu í rannsóknum og þróun og færa þannig stjarnfræðilegar árangurstölur fram að það er lyginni líkast. Á sama tíma sitjum við uppi með þá staðreynd að Hagstofan staðfestir að afkoma í sjávarútveginum á síðasta ári var metafkoma þrátt fyrir að búið væri að greiða þau veiðigjöld sem meiri hlutinn reyndi að telja þjóðinni trú um í sumar að greinin gæti ekki staðið undir. Samt skilar greinin metafkomu og hún greiðir þar af leiðandi ekki auðlindarentuna til fulls í sameiginlega sjóði.

Það er engin efnahagsleg skynsemi og engin rökleg hugsun í því að atvinnugrein sem nýtur aðgangs að auðlindum þjóðarinnar og borgar ekki fyrir hana fullt endurgjald njóti þessa ofurhagnaðar og að menn leggi á móti sértæka á skatta á námsmenn. Þetta sýnir bara öfugsnúið hugarfar.