143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[16:21]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna og andsvarið. Ég er sammála honum um að svo virðist sem ríkisstjórnin hafi væntingar eins og hann komst ágætlega að orði, og maður verður að gera ráð fyrir að menn hafi haft eitthvert plan. En nú er að sannast það sem Jón Sigurðsson forseti, sem er hér uppi á vegg og horfir á okkur, orðaði svo ágætlega um miðja 19. öldina um að krásir fljúga ekki í munn manns í svefni. Ríkisstjórn sem ber sig ekki eftir björginni getur ekki vænst mikils árangurs.

Í þessu tilviki reyndar eru menn náttúrlega búnir að ganga með grasið í skónum á eftir framkvæmdaraðilum Norðuráls og gefa ótrúlegar yfirlýsingar um eindreginn vilja ríkisstjórnarinnar til að semja við þá, sama hvað það kostar. Menn hafa því ekki verið að hugsa mikið til þess að styrkja samningsstöðu í því efni, þess þá heldur er niðurstaðan sláandi ef hún er að verða sú að búið sé að slá verkefnið af.

Ég þykist muna það í umfjöllun um þjóðhagsspána á sameiginlegum nefndarfundi efnahags- og viðskiptanefndar og fjárlaganefndar að menn hafi verið að búast við að Helguvík byrjaði að koma inn seinni hluta árs 2014 frekar en fyrri hluta árs 2015. Kannski man hv. þingmaður það betur, mig minnir að það hafi verið seinni hluta árs 2014.

Ég tel að óhjákvæmilegt sé að við í ljósi þessara fregna förum yfir þjóðhagsspána og forsendur fjárlaganna því að hér eru menn að reikna sér milli umræðna gríðarlegan arð í ljósi uppörvandi hagvaxtartalna sem voru að detta inn. Það er alveg spurning á hversu traustum grunni fjárlagaumgjörðin að öllu leyti hvílir í ljósi þessara síðustu frétta.