143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[16:24]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég deili þeim skoðunum með hv. ræðumanni að ég held að óhjákvæmilegt sé að yfir þetta verði farið rækilega í efnahags- og viðskiptanefnd og eftir atvikum einnig í hv. fjárlaganefnd því að svona hefur þetta verið kynnt fyrir okkur. Ég legg sama skilning í að menn hafi verið að tala um að það færi að gæta fjárfestinga af framkvæmdum í Helguvík — reyndar sagði Hagstofan ígildi þeirra ef ég man rétt — á síðari hluta árs 2014, síðan stendur hér að þær verði í hámarki 2015 og 2016. Það er nú kannski fátt sem bendir til að eitthvert ígildi þessa einhvers staðar annars staðar sé að detta af himnum ofan. Hæstv. ríkisstjórn er á þeim villigötum sem raun ber vitni varðandi áherslur á uppbyggingu, nýsköpun og fjárfestingar í almennu atvinnulífi. Kannski tekst okkur að einhverju leyti í ljósi þessara frétta að fá menn til að setjast aðeins yfir það. Er ekki skynsamlegt að endurmeta ýmislegt sem er á dagskrá í fjárlagafrumvarpinu og þessum bandormum í því ljósi (Forseti hringir.) ef gullgæsin er að fljúga hjá?