143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[17:01]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef svo sem velt því sama fyrir mér varðandi fjárfestingaráætlunina, hvort það sé virkilega þannig að þau mörgu góðu verkefni sem fengu loksins brautargengi þar séu einfaldlega fórnarlömb pólitískrar meinbægni. Ég held að það sé eitthvert þroskaleysi, eða ég veit ekki hvað ég á eiginlega að kalla það, ef svo er virkilega. Trúlega er þá stjórnarandstaðan fyrrverandi, núverandi meiri hluti, að einhverju leyti fangi síns eigin málflutnings hér á síðasta kjörtímabili þegar menn gerðu það að íþrótt að tala alla skapaða hluti niður sem fyrrverandi ríkisstjórn var að bera fram og þar á meðal þessa fjárfestingaráætlun, sem var nú hvernig? Að leggja áherslu á menntun, rannsóknir og þróun, fjárfestingu í innviðum okkar, í samgönguframkvæmdum, í innviðum ferðaþjónustunnar, stuðningi við skapandi greinar, stuðningi við litla útflutningssjóði margra skapandi greina.

Hvað er það þessu? Hver getur haft málefnalega á móti þessu en samt verður þetta fórnarlamb niðurskurðar hjá hæstv. ríkisstjórn? Það læðist að mér sá grunur að þarna sé þroskaleysi á ferð og það vandamál að menn eru um of fangar síns eigin óábyrga málflutnings á síðasta kjörtímabili.

Hvar ætti að bera niður? Ég held til dæmis að stuðningur við útflutning hinna skapandi greina sé ákaflega ódýr en geti um leið verið alveg gríðarlega skjótvirk aðgerð til þess að ná upp útflutningstekjum og skapa störf. Það hefur sýnt sig. Bara pínulítill sjóður sem styður við útflutning á hönnun, útflutning á tónlist, útflutning á bókmenntum. Svo er það Kvikmyndasjóður, endurgreiðsla rannsóknar- og þróunarkostnaðar, tvímælalaust, innviðirnir í ferðaþjónustunni, tvímælalaust. Að einhverju leyti kannski byggingarframkvæmdir, (Forseti hringir.) samanber það til dæmis að stofnun Árna Magnússonar er tilbúin og samanber verknámshúsið á Selfossi þar sem ríkið getur (Forseti hringir.) komið framkvæmdum af stað með tiltölulega litlu fjármagni vegna þess að sveitarfélög og Háskóli Íslands (Forseti hringir.) ætla að taka stóran hluta byggingarkostnaðarins fyrstu eitt, tvö árin.