143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[17:05]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að leggja orð í belg um frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014. Minn almenni útgangspunktur í ræðu er hvernig við tölum um ríkisfjármál út frá því sem er í frumvarpinu og pólitíkin á bak við þetta allt saman.

Mér finnst umræða um ríkisfjármál, opinber fjármál allt of oft falla í þá gryfju að stjórnarmeirihlutinn segir að eitthvað sé ekki hægt og minni hlutinn á þingi segir: Jú, víst. Svo skipta menn um stóla og fara í ríkisstjórnarmeirihluta og segja þá að eitthvað sé ekki hægt og þá er nýr minni hluti sem segir: Jú, víst. Við erum föst í þeirri endalausu hringavitleysu. Dæmi um þetta er umræðan hér árlega um verðlagshækkanir. Ég man alveg eftir því á síðasta kjörtímabili að fluttar voru miklar ræður af þáverandi minni hluta á þingi sem nú er í stjórnarmeirihluta um það hversu ömurlegt það væri að hækka opinber gjöld og skapa þannig verðbólgu sem þar með hækkaði vísitölu neysluverðs sem þar með hækkaði höfuðstól verðtryggðra lána.

Þessar ræður voru fluttar á síðasta kjörtímabili og ég tók undir þær. Mér finnast þetta ömurlegar kringumstæður sem við erum í árlega. Við erum reyndar í þeim kringumstæðum að við hækkum opinber gjöld, gerum verðlagsbreytingar til þess að mæta verðlagsbreytingum sem hafa orðið, sem sagt hækkun verðbólgu, og þær verðlagsbreytingar sem við ákveðum hér hækka síðan aftur verðbólgu sem leiðir til þess að við verðum að grípa til verðlagsbreytinga aftur á næsta ári. Þetta bítur í skottið á sér. Mér finnst ástæða til að komast út úr því. Það sýnir hversu erfitt þetta verkefni er að nú höfum við stjórnarmeirihluta sem talaði mikið um þetta á síðasta kjörtímabili en hækkar núna opinber gjöld til þess að mæta verðbólgu. Enn og aftur vil ég spyrja hefðbundinna spurninga. Ég vil láta þetta minna okkur á að eitt höfuðverkefnið, stærsta verkefni íslenskra efnahagsmála er að koma á verðlagsstöðugleika. Það er verkefnið og mér finnst við sífellt, sem lýsir sér í þessari árlegu umræðu, vera að ýta því verkefni á undan okkur.

Einu sinni í hagstjórnarsögu Íslendinga hefur þetta verkefni verið tekið alvarlega og það var árið 1990 með þjóðarsáttinni. Hún átti sér margra ára aðdraganda. Hún var mjög flókin. Hún var vissulega erfið. Hún snerist um að það þurfti að fá hið opinbera, þurfti að fá sveitarfélögin, þurfti að fá fyrirtæki, þurfti að fá atvinnulífið með í það verkefni að hækka ekki gjöld til að kljást við verðbólguna. Um það snerist þjóðarsáttin og eitt erfiðasta verkefnið var einmitt að fá hið opinbera til að hækka ekki gjöldin. Þetta var hægt og var gert. Mér finnst við hafa gleymt því og við búum við ákveðið hagstjórnarleysi þegar kemur að verðbólgunni. Við erum farin að sætta okkur við hana og núna eru boðaðar aðgerðir til þess að lækka höfuðstól verðtryggðra lána.

Við skulum líta á dæmi í því samhengi til að sjá í hvers lags ógöngum við erum. Það á að lækka höfuðstól verðtryggðra lána um 20 milljarða kr. á ári næstu fjögur árin. Það á að innheimta um 80 milljarða kr. af bankaskatti til þess arna. Bara þær verðlagsbreytingar sem við erum að gera hér munu hækka, samkvæmt greinargerð frumvarpsins, verðlag um 0,3%. Nú hefur reyndar komið fram að það er verið að hækka þessar gjaldskrár um meira en 3% eða 3,6% þannig að verðlagsáhrifin verða eitthvað yfir 0,3%, kannski nærri 0,35%. Þá ætla ég að grípa niður í nefndarálit frá því í fyrra þegar þeir sem sitja nú í stjórnarmeirihluta voru í minni hluta. Þá átaldi 1. minni hluti, sem samanstóð af hv. þm. Eygló Harðardóttur, harðlega eða taldi slíkar hækkanir rýra enn frekar kaupmátt heimilanna samhliða því að verðtryggð lán hækkuðu. 2. minni hluti, sem samanstóð af hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, mat 0,36% hækkun á vísitölu neysluverðs til 5 milljarða kr. hækkunar á höfuðstól verðtryggðra lána. Ég hef enga ástæðu til þess að rengja þá útreikninga og núna horfum við upp á svipaða prósentuhækkun á vísitölu neysluverðs einungis með þessum ákvörðunum hér. Þær leiða þá til um 5 milljarða kr. hækkunar á höfuðstól verðtryggðra lána.

Hæstv. forseti. Það er fjórðungur af þeirri krónutölu sem á að lækka höfuðstól verðtryggðra lána með sérstökum aðgerðum. Ef verðtryggð lán, höfuðstóll þeirra hækkar um 5 milljarða kr. á ári næstu fjögur árin, vegna þess að gerum ráð fyrir að við komumst ekki út úr þessum aðstæðum, eru það 20 milljarðar kr. sem bætast á höfuðstól verðtryggðra lána, fjórðungur af þeim 80 milljörðum kr. sem á að setja í verkefnið. Það er ekkert ólíklegt að verðbólgan verði meiri vegna þess að Seðlabankinn hefur þegar gefið út álit sitt á boðuðum aðgerðum og leiðir líkur að því að þær geti orðið verðbólguhvetjandi. Þá verða verðlagsbreytingarnar sem við ákveðum hér enn þá hærri og áhrifin á höfuðstól lánanna enn þá meiri. Við erum því kannski að horfa upp á að þriðjungur af þessum 80 milljörðum kr. verði étinn upp, aðeins með ákvörðunum sem við tökum hér inni.

Þetta eru kringumstæðurnar sem við erum í. Við erum endalaust í efnahagslífinu að bíta í skottið á okkur, hækka eitthvað sem hækkar sem verður til þess að við verðum áfram að hækka og það eru auðvitað heimilin sem verða fyrir barðinu á því.

Við í Bjartri framtíð höfum nálgast skuldamál heimilanna þannig að við höfum sagt að leysi verði grunnvandann, við verðum að komast út úr þessum kringumstæðum og um hvað snýst það? Það snýst að sjálfsögðu um aga í ríkisfjármálum. Hann má vera talsvert meiri. Stöðugleika í efnahagslífi verður líka að ná með nýjum gjaldmiðli, höldum við fram, og höfum þess vegna mælt fyrir því hér á þingi að gerð verði gjaldmiðilsstefna. Við erum líka talsmenn þess að auka fjölbreytileikann í atvinnulífinu og að við aukum verðmæti útflutnings og kem þá kem ég að næsta lið sem ég ætla að tala um: Nýsköpun, þróun.

Hvers vegna vorum við allmargir þingmenn að berjast fyrir því að þessi fjárfestingaráætlun yrði sett á síðasta kjörtímabili? Var það kannski vegna þess að um árabil höfðu margir í samfélaginu, og einnig sýndi reynslan það erlendis frá, bent á að fjárfestingar í rannsóknum og nýsköpun og þróun væri einhver besta og skilvirkasta leiðin til þess að auka fjölbreytni til að skapa hátekjustörf, til að auka útflutningstekjur? Það fjalla allir stjórnmálamenn um þetta á einhverjum tímapunkti. Það stendur í stjórnarsáttmálanum að það sé áhersluatriði ríkisstjórnarinnar. Fjárfestingaráætlunin er hins vegar eina dæmið um það, nánast, að eitthvað heildstætt sé gert í þessu, eitthvað virkilega stórt, að gefið sé og ákveðið að þarna liggi sóknarfærin, þarna liggi tekjur framtíðarinnar. Það er vísað í reynslu nágrannaþjóðanna, það er vísað í góð rök, það er vísað í vandaðar skýrslur: Í þetta ætlum við að fara.

Annað gott dæmi, ekki næstum því jafn viðamikið en þó gott, er skattafsláttur til nýsköpunarfyrirtækja vegna framlaga til rannsóknar og þróunar sem var frumvarp, sem var samþykkt í þessum þingsal á síðasta kjörtímabili. Það veldur mér hryggð að það skuli verið að skera niður þann skattafslátt. Að vísu eru breytingartillögur fyrirliggjandi frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Ég leyfi mér að segja að þær séu skömminni skárri en þær eru samt vondar. Þær snúast um að lækka þakið á endurgreiðslunni. Það bitnar fyrst og fremst á stærri nýsköpunarfyrirtækjum.

Það er ekki góð pólitík að grípa til aðgerða sem bitna á stærri nýsköpunarfyrirtækjum. Það eru einkum þau sem við erum í samkeppni um við önnur lönd. Stærri nýsköpunarfyrirtæki geta einfaldlega flutt starfsemi sína og við verðum að hlúa að þeim og við verðum jafnvel að beina sjónum sérstaklega að stærri nýsköpunarfyrirtækjum sem geta vaxið mjög. Það er eitt sem mér finnst lítið rætt, við ræðum mjög mikið um sprota og mikilvægi þeirra og að hlúa að þeim, en það er ekki síður fyrirtæki sem eru komin vel á legg sem geta stækkað mjög mikið. Við sjáum augljós dæmi um það til dæmis frá Finnlandi þar sem er Nokia, sem áður var mjög stórt fyrirtæki í ákveðnum rekstri, söðlaði um og gerðist fyrirtæki í fararbroddi í farsímatækni. Það eru mýmörg dæmi um að fyrirtæki sem þegar eru orðin stór verji miklum fjármunum í nýsköpun og þróun og það er ekki skynsamlegt að lækka framlögin til þeirra að mínu mati. Ég held að það komi illa niður á okkur vegna þess að við erum í samkeppni um þessi fyrirtæki.

Annað sem ég vil tala um í því sambandi er viðhorfið sem ég greini í þingsal þegar við erum að ræða rannsóknir og þróun. Ég man alveg eftir því þegar við vorum að samþykkja fjárfestingaráætlunina í fjárlögum í fyrra og ég greindi einhvers konar hæðnisglott hjá ákveðnum þingmönnum. Ég las síðan greinar í kjölfarið um að þetta væru kölluð gæluverkefni og hitt og þetta og núna heyri ég jafnvel hæstv. iðnaðarráðherra tala um að því miður séu ekki til peningar í allt og auðvitað vilji maður leggja til góðra mála, hitt og þetta, en því miður séu ekki til peningar. Ég mundi segja að við ættum að hætta að tala svona. Það er ekki góðgerðamál að leggja peninga í nýsköpun og þróun, að leggja peninga í Tækniþróunarsjóð, að endurgreiða nýsköpun. Það eru fjárfestingar. Þetta eru einhverjar skynsamlegustu fjárfestingar sem við getum ráðist í og það er ákveðinn munur á fjárfestingum og einfaldlega beinhörðum útgjöldum. Fjárfestingar geta verið skynsamlegar og vissulega geta þær líka verið óskynsamlegar en það hníga að því öll rök, margar skýrslur, margar greiningar, reynsla nágrannaríkja og annarra ríkja að fjárfesting í nýsköpunarþróun skilar sér til baka í tekjum.

Af hverju er svona mikilvægt að ræða þetta? Ég sagðist ætla að ræða um pólitík í þessari ræðu. Ég hef þegar rætt hversu mikilvægt sé að við tökum það föstum tökum að ná niður verðbólgu í landinu vegna þess að við erum föst í hagstjórnarleysi hvað það varðar og vantar einfaldlega pólitískt inngrip. Hér hefði líka verið hægt að sýna pólitískan vilja og það hefði verið rosalega einfalt vegna þess að fjárfestingaráætlunin var meira að segja með tekjustofn, en burt séð frá því var fjárfestingaráætlunin þegar komin inn í fjárlög. Það var þegar búið að auka til Tækniþróunarsjóðs og þetta frumvarp um afslátt til nýsköpunarfyrirtækja hefur þegar verið samþykkt. Ríkisstjórnin er því að leggja lykkju á leið sína, sérstaka pólitíska lykkju á leið sína til þess að vinda einhvern veginn ofan af því öllu. Það lýsir pólitískum vilja sem gengur í öfuga átt við þá sem við ættum að vera að fara í.

Við tölum um hallalaus fjárlög, sem er mjög mikilvægt, en við verðum líka að horfa til langs tíma, til lengri tíma. Við verðum að skapa störf hér á landi sem henta ungu fólki, þar sem framleiðni er mikil, þar sem markaðssvæðið er allur heimurinn og þessi störf eru í hugverkaiðnaði, tækni, skapandi greinum, grænum iðnaði. Þetta er þarna og það að við gerum þetta ekki, horfum ekki fram á veginn og beinlínis hættum við það, þess sér stað í ríkisfjármálaáætluninni. Við sjáum það. Horfurnar samkvæmt ríkisfjármálaáætluninni eru ömurlegar. Það virðast engin áform vera um aukinn vöxt. Það vantar alla sýnina.

Það eina sem við fáum sem svar er þessi nauðung, til þess að þurfa ekki að ræða pólitíkina sem er á bak við, „það eru ekki til peningar“. En ef við eigum ekki til peninga í skynsamlegar fjárfestingar sem skila okkur tekjum komumst við aldrei út úr því ásigkomulagi að eiga enga peninga. Ef við gerum ekkert pólitískt verðum við áfram stödd í hringavitleysu verðbólgunnar, endalaust pissandi í skóinn og stækkum ekki kökuna. Það vantar sýnina, það vantar pólitíska viljann. Það er svo merkilegt að hann var kominn inn í fjárlög. Af hverju að taka hann út? Það er undarlegt.

Þriðja atriðið, sem líka er spurning um pólitískan vilja en ekki nauðung, er Fæðingarorlofssjóður. Fæðingarorlofssjóður og efling hans hefur yfirleitt notið mikils fylgis meðal alþingismanna og hefur verið ákveðið stolt í velferðarkerfinu. Við hrunið jókst atvinnuleysið alveg gríðarlega og það fylgdi með að þrengja varð að Fæðingarorlofssjóði vegna þess að Fæðingarorlofssjóður og Atvinnuleysistryggingasjóður sækja í sama tekjustofn sem er tryggingagjaldið og vöxtur í atvinnuleysi gerði það að verkum að hækkun tryggingagjalds fór eiginlega mest megnis í Atvinnuleysistryggingasjóð.

Ég vonaðist alltaf til að þegar atvinnuleysi færi niður mundum við fara í það verkefni að efla aftur Fæðingarorlofssjóð. Ég fagnaði því mjög þegar við samþykktum í fyrra að lengja fæðingarorlofið og fara í þá átt með Fæðingarorlofssjóð sem við höfum talað um í þessum þingsal um nokkurt skeið að væri skynsamlegt að gera, sem snýst meðal annars um að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Síðan finnst mér alltaf þegar við tölum um Fæðingarorlofssjóð að við megum ekki gleyma því að þetta er sameiginlegt hagsmunamál ríkis, sveitarfélaga, atvinnulýðs, verkalýðs. Ég veit að það er ekki rómantískasta nálgun sem til er á barneignir að segja að börn séu vinnuafl framtíðarinnar og þess vegna sé það mikið hagsmunamál að þau fæðist en þannig er það samt. Fæðingarorlofssjóður á að vera öflugur og það er réttlætanlegt að hann sæki tekjur sínar til launþega og atvinnurekenda út af þessu hagsmunamáli, þessari órómantísku nálgun á fæðingar.

Þetta er einfaldlega vinnuafl framtíðarinnar og við verðum að búa svo um hnútana að fólk geti — mér var reyndar bent á það á einum tímapunkti að ég ætti ekki að nota orðið átakalaust vegna þess að fæðingar fela nú oft í sér mikil átök — án mikilla fjárhagsáhyggna komið börnum á legg. Það er mikið og stórt hagsmunamál. Það er ekki gæluverkefni heldur beinhart, stórt mál.

Ég sakna þess að sá pólitíski vilji skuli ekki vera til staðar að fara í viðræður við fulltrúa atvinnulífsins, sveitarfélaga og annarra sem hafa hagsmuni af þessu til að finna út hvernig við viljum hafa Fæðingarorlofssjóð. Hvernig á hann nákvæmlega að vera? Hvað á þakið að vera hátt? Hvað á hann að gefa langan rétt? Síðan er í kjölfarið einfaldlega hægt að ákveða hvað hann fær stóran hluta af tryggingagjaldinu og ekkert krukkað í því meira. Þetta er hægt. Þetta er mjög vel hægt. Það er meira að segja ekkert svo stór hluti af tryggingagjaldinu sem færi í það að halda uppi Fæðingarorlofssjóði nákvæmlega eins og við vildum hafa hann. Ef það væri sátt um það í atvinnulífinu, sátt um það í þessum þingsal þá hefðum við tekið gott, pólitískt skref. Þetta er hægt.

Ég hef í ræðu minni farið yfir þrjá veigamikla liði í frumvarpinu sem mér finnst algjör óþarfi að segja að séu háðir einhverri nauðung og sé ekki hægt að ræða einfaldlega sem pólitíska stefnumörkun. Í þessum þremur veigamiklu atriðum finnst mér ríkisstjórnin vera á alrangri leið.