143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[17:29]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil kannski síður fara út í einhverjar hártoganir, en ákveðið var að auka verulega framlag til nýsköpunar, þróunar, skapandi greina og svoleiðis á síðasta ári. Ef sú aukning er tekin út og litið er fram hjá henni mætti vissulega halda því fram að miðað við 2012 sé núna verið að auka eitthvað til sumra liða. En við erum bara að tala um sitt hvorn hlutinn. Það var ástæða fyrir því að farið var í þessa fjárfestingaráætlun, búið var að tala um það lengi að auka þyrfti allverulega t.d. til Tækniþróunarsjóðs, Rannsóknasjóðs o.s.frv. og markáætlunar á sviði vísinda. Það er svolítið skrýtið að tala síðan um að við hækkum núna með því að ýta hækkun síðasta árs einhvern veginn út af borðinu. Alla vega erum við þá að tala svolítið um sitt hvorn hlutinn.

Ég er í máli mínu að leggja áherslu á það að við (Forseti hringir.) höldum okkur að langmestu leyti við sóknina sem við fórum í á síðasta ári.