143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[17:34]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er laukrétt hjá hv. þingmanni. Ég var líka að reyna að vera lausnamiðaður í ræðu minni og benti á að það væru að mínu mati einkum þrjár leiðir, vissulega almennar en samt eitthvað sem við verðum að taka mjög alvarlega, sem við höfum til að koma á auknum stöðugleika á Íslandi.

Eitt varðar náttúrlega stöðu ríkissjóðs, eins og hv. þingmaður fór yfir. Ég minntist líka á það, ég kallaði það aga í ríkisfjármálum eða hvað við skulum kalla það, ég held sem sagt að hallalaus ríkisrekstur sé gríðarlega mikilvægur.

Annað er fjölbreytni í atvinnulífi, auknar útflutningstekjur og meiri framleiðni í atvinnulífinu því samfara. Ég held að það þurfi að haldast í hendur, við þurfum að skapa réttstöðu, skapa hálaunastörf, störf sem framleiða vöru sem við getum selt mjög víða og er ekki bundin náttúrulegum framleiðslutakmörkunum. Þess vegna erum við með þessa áherslu til dæmis á skapandi greinar, hugverkaiðnað og svoleiðis.

Það þriðja sem ég leyfi mér að nefna er gjaldmiðillinn. Þar veit ég ekki hvort (Forseti hringir.) við hv. þingmaður erum sammála.