143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[17:37]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að hv. þingmaður sé andvígur komugjöldum og leggist gegn þeim að þessu sinni, eins og hann segir. Það er auðvitað þannig, og mikilvægt að hafa það í huga, að ein af ástæðunum fyrir þessum mismun er sú að sjúkrahúsin eru þrátt fyrir allt eign almennings og opinberar stofnanir en aðrir hlutar heilbrigðiskerfisins þar sem gjaldtaka er, og sums staðar umtalsverð, eru oft á tíðum einkareknir. Þess vegna er það hluti af hreinni hugmyndafræðilegri togstreitu um það hversu langt eigi að fara í einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu hvort menn koma á gjaldtöku á sífellt nýjum sviðum og sviðum sem eru algjörlega ríkisrekin, vegna þess að um leið gjaldtakan er komin þar eins og í hinu einkarekna fellur röksemdin fyrir því að hafa það ríkisrekið. Þess vegna er mikilvægt að standa vörð um þann kjarna í heilbrigðiskerfinu sem við viljum að sé áfram í ríkisrekstri og sé almannaþjónusta og verði ekki einkavæddur.