143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[17:40]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég staldra aðeins við þann kafla sem fjallar um fæðingarorlof og ágætishugleiðingar um framtíðina hjá hv. þingmanni í þeim efnum, enda vill hann væntanlega sjá bjarta framtíð þar eins og annars staðar og uppbyggingu í því kerfi.

En vandinn er sá að það sem við stöndum frammi fyrir er þróun í þveröfuga átt, þ.e. til stendur að rústa tekjustofni Fæðingarorlofssjóðs með þessu frumvarpi og tengdum bandormi þar sem prósenturnar eru á ferðinni. Það færir okkur í áttina burtu frá því til dæmis að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla sem tillaga er hér um, og verður vonandi afgreidd engu að síður, að skoða á næstu árum.

Það sem þyrfti til — af því að hv. þingmaður hefur nú verið svo kjarkmikill, einn fárra, að setja hér spurningarmerki við skynsemi þess að lækka til dæmis milliþrepið í tekjuskatti og tapa þar 5 milljörðum — er 0,1% af tryggingagjaldsstofni í viðbót að minnsta kosti inn í Fæðingarorlofssjóðinn þannig að hann gæti hvort tveggja í senn breytt eins mánaðar lengingu á næsta ári og gengi ekki á eigið fé sitt með sama hætti. Telur hv. þingmaður að það kæmi til greina að hækka þá bara tryggingagjaldið um það?