143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[18:01]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra ræðuna og góða yfirferð hans um málið. Mig langar aðeins að staðnæmast við meginefni ræðu hans sem er umfjöllunin um tækni- og þróunarstarfið. Hún var fróðleg, hún var ágæt en mér fannst samt gæta þess misskilnings hjá hæstv. ráðherra að það væri sjálfstætt markmið að alveg óhugsandi væri að fjárfesta í framtíðinni með lántöku þegar rannsóknar- og þróunarstarf er annars vegar. Ég vil í því sambandi benda hæstv. ráðherra á mjög athyglisverða greiningu Viðskiptaráðs nýverið þar sem þeir komast að þeirri niðurstöðu að þegar um er að ræða hagvaxtaraukandi verkefni, eins og framlög í rannsóknar- og þróunarsjóðina og samkeppnissjóðina sem ég er ánægður með að hæstv. ráðherra talar fallega um, séu það verkefni sem skili það miklum ávinningi fyrir samfélagið að betra sé að halda framlögunum áfram en að ná jöfnuði í ríkisfjármálum.

Það er mjög athyglisvert að skoða grein Davíðs Lúðvíkssonar og Hauks Alfreðssonar í Fréttablaðinu í morgun þar sem rakið er — þetta er bara empirísk stúdía á því hvernig þessum fyrirtækjum hefur vegnað — að þetta sé slík gríðarleg fjárfesting að þegar horft er á fyrirtæki sem fengu styrki úr Tækniþróunarsjóði árið 2005 vex starfsmannafjöldinn fram til 2012 úr 500 í 1.000 og fyrirtækin greiða framlög ríkisins tuttugu- til fjörutíufalt til baka á tímabilinu. Ég vil þess vegna segja að þrátt fyrir ágætisorð hæstv. ráðherra tala staðreyndirnar sínu máli og prófessorarnir gera sér það ekkert að leik að segja sig úr Vísinda- og tækniráði til að mótmæla áhugaleysi ríkisstjórnarinnar á þessum málaflokki.