143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[18:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Jafnvel þótt hér væri um að ræða hliðrun milli ára væri þetta engu að síður vísbending um að þróunin væri í rétta átt. Eitt af því sem maður tekur eftir varðandi hina samsettu þætti landsframleiðslunnar er að jafnvel þótt fjárfestingin hafi dregist saman miðað við árið 2012 var þar um að ræða mjög stór kaup í skipum og flugvélum. Ef við horfum fram hjá því og horfum á fjárfestingu í atvinnulífinu, að frádregnum fjárfestingum í skipum og flugvélum, er hún að vaxa. Hún er líka að vaxa á hverjum einasta ársfjórðungi á þessu ári þannig að fjárfesting annars staðar í atvinnulífinu er á uppleið. Vonandi er það vísbending um að fjárfesting almennt muni vaxa áfram inn á næsta ár. Það mundi skipta verulega miklu máli.