143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[18:47]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Hún kom líka inn á nýsköpunarfyrirtækin og það að ætla að draga úr endurgreiðslu til nýsköpunarfyrirtækja, sem kemur fram í þessu frumvarpi. Við vitum að mikil gróska hefur verið, eins og hv. þingmaður kom inn á, hjá nýsköpunarfyrirtækjum í landinu og ótrúlega mikið jákvætt og gott sprottið upp úr þeim geira á þessum erfiðu árum þegar fólk þurfti virkilega að leggja höfuðið í bleyti, nota hugvitið og leita leiða til að bera ábyrgð á eigin lífi, finna sér atvinnutækifæri og reyna að gera allt hvað það gat.

Nú hefur það komið fram hjá Viðskiptaráði, minnir mig, að það telji ekki réttlætanlegt að skera það mikið niður til að ná jöfnuði í ríkisfjármálum að það bitni á þeim mikla uppgangi sem hefur verið hjá nýsköpunarfyrirtækjum og í rannsóknum og þróun, sem til lengri tíma litið skilar þjóðfélaginu miklum tekjum. Menn eru þá að eyðileggja það að ríkið fái framtíðartekjur frá þessum greinum sem þurfa ákveðinn stuðning í upphafi. Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns til þess. Er hún sammála Viðskiptaráði í þeim efnum að menn megi ekki ganga svo nærri nýsköpunarfyrirtækjum og sprotum í þjóðfélaginu að það minnki líkur á að ríkið fái miklar tekjur í framtíðinni af þessari grein sem hefur verið að vaxa og dafna og hefur vitanlega fengið stuðning frá fyrrverandi stjórnvöldum?