143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[18:49]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það má alveg færa að því rök að rétt sé að vera að einhverju leyti með slaka í hagkerfinu, í ríkisfjármálum í kreppu til að byggja upp nýja atvinnuvegi og setja peninga í nýsköpun og þróun. Á þessum tímapunkti styð ég hins vegar eindregið þá stefnu ríkisstjórnarinnar að afgreiða hallalaus fjárlög. Ég mundi aftur á móti gera það allt öðruvísi. Við erum að tala um atvinnuvegina og við erum með atvinnuvegi í landinu sem eru í blússandi gangi. Ég tel að færa ætti peninga frá þeim atvinnuvegum yfir í nýju atvinnuvegina til að koma fleiri stoðum undir atvinnulífið, ég held að það hafi verið kallað það einhvern tíma á mínum yngri árum. Þess vegna var ég mótfallin því að lækka veiðigjaldið og þess vegna var ég mótfallin því að lækka það sem kalla má neysluskatta á ferðamenn og færa virðisaukaskattinn á gistingu niður í 7% frá því sem ákveðið hafði verið, að hafa það í 14%, þegar ferðaiðnaðurinn er í blússandi gangi.

Ég mundi mæla með því að farin yrðir sú leið en ég (Forseti hringir.) er mjög sammála þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að stefna að hallalausum fjárlögum.