143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[18:51]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir ágæta ræðu. Ég er sammála henni um mjög margt, kannski flest, ekki alveg allt.

Hún vék að ýmsum prinsippmálum í ræðu sinni, þar á meðal um skattlagningu, markaða tekjustofna og almenna skattlagningu. Ég er fullkomlega sammála þingmanninum um að línur þurfi að vera skýrar hvað þetta snertir. Það er þannig rangt að hækka gjöld á háskólanema, taka afraksturinn inn í ríkissjóð og láta hann aðeins að hluta til renna til Háskóla Íslands eins og þingmaðurinn vakti réttilega máls á.

Hins vegar er ég ósammála því sem fram hefur komið, m.a. í ræðum manna hér í dag, að framtíðin beri það í skauti sér að við leggjum af markaða tekjustofna. Ég held að þróunin muni ganga í gagnstæða átt, fólk vill fá að hafa áhrif á skatta sína og kemur til með að vilja greiða atkvæði í beinum kosningum um einstaka þætti sem það vill geta fjármagnað og þá treyst því að fjármunirnir renni til þeirra málefna. Ég er ekki viss um að þetta sé endilega gott á öllum sviðum en mér segir svo hugur að þróunin verði í þá átt þótt spekingar í fjárlagagerð og skattheimtu séu margir á þeirri hugsun að þetta hljóti að hverfa. Ég held að það verði ekki.

En varðandi launin, er ekki vandinn sá að launamisréttið í landinu er orðið allt of mikið? Við erum að horfa til fiskverkafólks sem er með undir 200 þús. kr. á mánuði í laun og síðan erum við með ýmsa atvinnurekendur, ekkert alla, sem greiða sér himinhá laun og taka (Forseti hringir.) mikinn arð út úr rekstri sínum eins og dæmin sanna í útveginum.