143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[18:56]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þetta sjónarmið. Auðvitað þurfa atvinnurekendur eða þeir sem hafa ráð á því að deila verðmætunum sjálfir að sýna ábyrgð. Mér fannst þessi ósvífni sem hv. þingmaður vék að birtast ágætlega í auglýsingu frá Samtökum atvinnulífsins ekki alls fyrir löngu. Hún vakti mikla reiði í röðum launafólks þar sem atvinnurekendur horfðu til þess sem mundi gerast ef laun yrðu hækkuð. Þá var andsvarið til dæmis frá Starfsgreinasambandinu að það væri ekki saman að jafna lágum launum og háum launum. Þeir sem stóðu að þessari auglýsingu áttu það sammerkt að vera með mjög há laun borið saman við þá sem þeir voru að tala til. Maður hugsar sitt líka þegar maður heyrir til dæmis forsvarsmenn Seðlabanka Íslands tala um launaþróun og fordæma launahækkanir almennt án þess að skilgreina hvað þeir eiga við. Eiga þeir við öll laun eða bara laun hinna, ekki sín eigin vegna þess að þeir sjálfir eru sæmilega haldnir? Þetta er nokkuð sem þarf að innleiða í samfélagsvitundina, að fólk ber ábyrgð. Það bera allir ábyrgð og ekki síst þeir sem stýra skiptingu á verðmætum samfélagsins.