143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[20:07]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Árið 1990 gegndi ég formennsku í heildarsamtökum opinberra starfsmanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, BSRB, og átti þátt í því að ganga frá heildarsamningum sem kenndir voru við þjóðarsátt. Það voru ekki allir sáttir við þá samninga en breið samstaða var að baki þeim. Þetta var á fyrri hluta árs 1990. Við stjórnvölinn sátu þá í landinu þrír flokkar í samsteypustjórn; Framsóknarflokkur, Alþýðubandalag og Alþýðuflokkur. Inni í þessum svokölluðu þjóðarsáttarsamningum voru ákvæði um endurskoðun samninganna, endurskoðunarákvæði, og sú endurskoðun fór fram með reglulegu millibili. Ég man ekki hvort það var á árinu 1992 eða 1993, sennilega á árinu 1992, sem ég hætti að kenna þessa samninga við þjóðarsátt og ástæðan var sú að stjórnvöld voru þá farin að nýta sér sáttina til að innleiða ýmiss konar skipulagsbreytingar, sérstaklega í heilbrigðiskerfinu, sem okkur voru ekki að skapi.

Þá voru nýir aðilar við stjórnvölinn undir forustu Sjálfstæðisflokksins. Það var samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks. Og ég minnist þess, þegar við ræddum það einhvern tímann í Karphúsinu, hvort ríkisstjórnin og atvinnurekendur, sem voru þá í einni spyrðu, gætu ekki fallist á að falla frá tilteknum gjöldum sem átti að innleiða á sjúkrahúsunum. Það voru einhvers konar göngugjöld. Ég hef nú ekki rifjað þetta upp en ég man hver var kjarni máls. Ég gleymi því aldrei þegar háttsettur embættismaður í samninganefnd ríkisins sagði að það gætu menn ekki vegna þess að þetta snerist um skipulag og prinsipp. Ég hafði einmitt á orði að ekki væri um ýkja háar upphæðir að tefla, að það gæti ekki verið hagsmunamál af þeim sökum að falla frá þessum hugmyndum sem var þá tekjuöflun fyrir heilbrigðiskerfið eða ríkissjóð. En það var af og frá. Þetta var kerfisbreyting, þetta var prinsippmál.

Þetta kemur upp í hugann núna þegar við erum að fá í hendur frumvarp sem gerir ráð fyrir rukkun fyrir að leggjast inn á sjúkrahús. Mér finnst þetta vera grundvallaratriði. Það eru ekki ýkja háar upphæðir sem eiga að innheimtast með þessu móti svona þegar á heildina er litið með tilliti til skatttekna ríkisins og útgjalda til heilbrigðismála en það eru þó um 200 milljónir króna. Menn vita ekki nákvæmlega hversu mikið þetta er en menn eru staðráðnir í að innleiða þetta.

Hæstv. forseti. Ég hefði áhuga á því að varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Pétur H. Blöndal, flutningsmaður meirihlutaálits við þessa umræðu, væri hér í salnum þegar ég er að ræða þessi mál. (Gripið fram í.) — Já, ég óska eftir því að hann hlusti á, hann átti í samræðum í hliðarherbergi við annan mann. Ég óska eftir því að hann hlýði á mitt mál. (Gripið fram í.) Ha? Er það eitthvað undarlegt, hv. formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins? Var þetta eitthvert hnuss sem var beint til mín sérstaklega? (Gripið fram í.) Það er gott, það er gott að heyra það vegna þess að ég er að ræða hér um ummæli hv. þm. Péturs H. Blöndals í fjölmiðlum í dag sem snúa að frumvarpinu sem ríkisstjórnin er hér að leggja fyrir þingið og snýr að komugjöldum á sjúkrahús. Mig langar hér á eftir að spyrja hv. þm. Pétur Blöndal út í ummæli hans sem birtust í Morgunblaðinu í dag.

Aðeins fyrst um þessi komugjöld nánar. Þau er að finna í breytingartillögu við frumvarpið sem hér er til umræðu. Þar segir, með leyfi forseta, í þessari breytingartillögu þar sem að þessu gjaldi er vikið að það nái meðal annars til kostnaðar við innritun og aðstöðu — það er þá væntanlega fyrir að liggja á spítala — og er heimilt að innheimta einu sinni fyrir hverja legu á sjúkrahúsi. Ekki er þó heimilt að taka gjald vegna innlagnar á fæðingardeild. Gjald fyrir þjónustu skal vera lægra hjá öldruðum, öryrkjum og börnum.

Ég spyr í fyrsta lagi: Hvernig stendur á því að það á að mismuna þarna þeim sem leggjast inn á sjúkrahús veikir, eru lagðir inn vegna veikinda eða slyss annars vegar og inn á fæðingardeild hins vegar? Ég er ekki að mælast til þess að það sé rukkað fyrir að leggjast inn á fæðingardeild en hvers vegna í ósköpunum? Fólk er ekki veikt þegar það fæðir börn. Það er í vinnu iðulega eða í fæðingarorlofi og með tekjur en sá sem veikist missir að jafnaði tekjur sínar nema hann búi við réttindi eins og margt launafólk vissulega gerir, það fær einhverjar greiðslur alla vega tímabundið í veikindum sínum. En hvers vegna er þessi mismunun? Á hvaða forsendum er þetta hugsað? Bara til að fá skýringu á því.

Menn áætla að fyrir þessa rukkun inn á spítalana komi um 200 milljónir króna en, og ég ætla að vitna hér í Morgunblaðið 10. des., með leyfi forseta:

„Pétur H. Blöndal, alþingismaður og framsögumaður málsins, sagði að komugjaldið ætti að verða hluti af sjúkratryggingakerfinu. Því mun það falla undir afsláttarkerfi sjúkratrygginga og reglur um afslátt til aldraðra, öryrkja og barna. Pétur kvaðst ekki hafa séð útreikninga um hve komugjaldið á að vera hátt en það yrði ákveðið í reglugerð. „Við vinnum að því að reyna að ná hallalausum fjárlögum og að beina fjármagni til heilbrigðiskerfisins,“ sagði Pétur.“

Öðruvísi mér áður brá þegar hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur staðið hér útblásinn í ræðustól að tala um reglugerðarheimildir til gjaldtöku sem hann hefur viljað að væru niðurnjörvaðar í lög og ætti ekki að vera heimilt neitt fúsk eða sveiflur í þeim efnum að geðþótta ráðherra. (Gripið fram í.) Þetta hefur verið grundvallaratriði hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal þar til nú, (Gripið fram í.) að hann ber fram þetta makalausa frumvarp sem er einhver mesti grautur sem ég hef nokkurn tímann séð á borðum Alþingis, eins ógagnsæ löggjöf og hugsast getur. Menn eru að fara bakdyraleið til að ná í peninga í ríkissjóð með því að rukka skólanema í Háskóla Íslands, ætla þar að taka, ég man ekki hvað það var, 200 milljónir kr. en ætla aðeins 30 milljónum kr. eða þar um bil að renna til Háskóla Íslands. Hitt á að fara í ríkissjóð.

Hæstv. forseti. Þetta finnst mér vera mjög í ósamræmi við málflutning hv. þm. Péturs H. Blöndals sem sannast sagna hefur verið mjög prinsippfastur maður í þessari umræðu á undangengnum árum. Ég get borið vitni um það. Ég hef ekki verið sammála honum í mörgum veigamiklum atriðum en hann hefur verið prinsippfastur og mér finnst þetta frumvarp ekki í samræmi við þann málflutning sem hann hefur haldið uppi og ég vil spyrja hv. þm. og framsögumann meirihlutaálitsins, Pétur H. Blöndal, nánar út í þetta, hvað valdi því að hann hverfi frá þessari prinsippfestu.

Ég held að ein ástæðan fyrir því að ekki varð framhald á pólitísku ástalífi Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins árið 2007 hafi verið sú að Framsóknarflokkurinn var orðinn hræddur við Sjálfstæðisflokkinn. Hann var orðinn hræddur við einkavæðingaráráttu Sjálfstæðisflokksins og tilraunir hans til að markaðsvæða heilbrigðiskerfið. En núna virðist eitthvað hafa slaknað á í taumhaldinu og menn virðast ætla að láta bjóða sér meira og mér finnst það vera óhugnanlegar fréttir sem birtast hér dag eftir dag í fjölmiðlunum. Ég vitnaði hér í morgun í Morgunblaðið í dag, 12. desember, þar sem verið er að vitna í fjárfesta á heilbrigðissviði sem segja að það sé lítið breytt varðandi fjárfestingarmöguleika — þar er verið að tala um sjúkrahús í Mosfellsbæ — en andinn er betri. Andinn er betri. Eftir stjórnarskiptin þá er andinn betri og við fengum líka fréttir af því þegar hæstv. heilbrigðisráðherra mætti hér uppi á Broadway, gamla veitingastaðinn Broadway, sem á að verða núna lækningamiðstöð opin allan sólarhringinn. Hann mætti þar fyrir hönd þingsins, ríkisstjórnarinnar vænti ég, og skattborgarans sem okkur er sagt af fjárfestunum, sem brostu út undir eyru, að kæmi til með að fjármagna alla starfsemina. Það ætti nú ekkert að vera að mismuna, þetta yrði allt úr ríkiskassanum.

Með öðrum orðum eru það þessir aðilar, fjárfestarnir, sem eru farnir að stýra för og ég spyr og vildi heyra álit framsóknarþingmanna á því hvað hefði breyst frá 2007 þegar þeir vildu segja skilið við Sjálfstæðisflokkinn vegna þeirrar stefnu sem er nú að birtast okkur í fjölmiðlum dag eftir dag. Ég vildi fá að vita það.

En það var eitt annað mál sem varð framsóknarmönnum mjög erfitt á þessum tíma. Það var Ríkisútvarpið. Það fór mjög illa í þorra kjósenda Framsóknarflokksins þegar Sjálfstæðisflokkurinn keyrði það í gegn að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi, opinberu hlutafélagi. Það fór afar illa í kjósendur Framsóknarflokksins og núna er þessi gamli draugur aftur mættur. Gamli draugurinn aftur mættur, Sjálfstæðisflokkurinn að reyna að troða Ríkisútvarpinu undir sinn hæl og ég furða mig á því, í sjálfsupphafningartalinu sem hefur birst okkur hér sérstaklega undir störfum þingsins dag eftir dag, þar sem menn eru að berja sér á brjóst og dásama eigin afrek, hvers vegna enginn minnist þar á Ríkisútvarpið.

Ég hlusta, held ég, á nánast allar stöðvar á öldum ljósvakans. Ég hlusta oft á Bylgjuna, ég hlusta oft á Útvarp Sögu og ég hlusta á Rás 2, ég hlusta á Rás 1 kannski mest og ég hef gert það undanfarna daga og það vill svo til að ég hitti alltaf á frænda minn og ágætan félaga, Helga Pétursson, að kynna dagskrárliði. Annaðhvort hvað er næst á dagskrá eða hvað hafi verið fellt niður, hvað standi til að fella niður í dagskránni. Það er líka mjög oft sem ég hef hitt á Helga Pétursson, nýráðinn útvarpsþul, að tilkynna okkur hvað hafi verið fellt niður í dagskránni og hvað standi til að fella mikið niður. Bíddu, af hverju er hann þarna einn? Jú, hann var kallaður inn eftir að þulir Ríkisútvarpsins voru reknir eins og hundar. Fólk sem er með raddir og framkomu sem okkur finnst mörgum mikil eftirsjá að, mjög góðir þulir, dagskrárþulir Ríkisútvarpsins, þeir voru reknir og sumum sagt að fara bara samdægurs, í jólamánuðinum en það eigi að kalla inn aðra aðila til að lesa. Gamla þuli, segja þeir. Ekki er mikið bisnissvit fólgið í þessu, varla, því að þetta kostar sína peninga, sinn pening, að kalla inn aðra staðgengla til að koma inn í staðinn.

Menn hafa verið að horfa á listann sem birtist yfir brottrekna starfsmenn Ríkisútvarpsins og auðvitað er vafasamt að fara að nefna einhver nöfn því að þau eru mörg góð. Gunnar Stefánsson, dagskrárgerðarmaður í Ríkisútvarpinu til áratuga, einhver vandaðasti útvarpsmaður sem hér hefur verið. Honum er sagt upp. Ég grennslaðist fyrir um þetta og hann hefur verið á sérstökum samningi sem rennur brátt út. Af hverju var það ekki látið gerast? Af hverju þarf að segja manninum upp? Ég hefði reyndar ekki gert það. Ég hefði framlengt samninginn við hann. Vegna þess að hann veldur því meðal annars að ég hlusta á Ríkisútvarpið. Einhver vandaðasti fréttamaður Ríkisútvarpsins, Gunnar Gunnarsson, hann er látinn fara. Ekki er það gert í þökk okkar hlustenda, alla vega ekki í mína þökk, alls ekki. Mér finnst mikil eftirsjá að þessum vandaða fréttamanni og starfsmanni.

Ég get haldið áfram að telja upp starfsmennina og reyndar kom mér í hug — og finnst engu líkara en að valdir hafi verið sérstaklega bestu og vönduðustu starfsmenn Ríkisútvarpsins til að reka þá. Ég held að það hafi verið orð að sönnu í Háskólabíói á fjölmennum baráttufundi sem haldinn var til stuðnings Ríkisútvarpinu og starfsmönnum útvarpsins þegar talað var um mannauðnarstefnu í stað mannauðsstefnu. Hún er fólgin í því að reka fólk. Segja því bara að fara heim til sín. Og menn hafa verið að bera þetta saman við það sem tíðkist í einkafyrirtækjum. Það er ranglátt. Þetta gerist ekki svona almennt í einkafyrirtækjum. Þessi vinnubrögð eru ekki viðhöfð í einkafyrirtækjum að segja við grandvara einstaklinga sem hafa sinnt sínum störfum vel að þeir eigi að yfirgefa skrifstofu sína samdægurs og loka sínum tölvum og hafa sig á braut. Hvers konar framkoma er það eiginlega? Og þetta er gert undir handarjaðri okkar, fjárveitingavaldsins og löggjafans, og það þýðir ekkert fyrir okkur að firra okkur ábyrgð í þessum efnum. Þess vegna eigum við að ræða þetta, hvar í flokki sem við stöndum. Þegar ég segi okkar, þá er ég að sjálfsögðu að tala um meiri hlutann hér í þessum sal. En við berum öll á því ábyrgð og ef við þegjum um þessi mál, hvar í flokki sem við stöndum, þá berum við ábyrgð á því og við eigum ekki að láta bjóða okkur þessa framkomu.

Ég tel að stjórn Ríkisútvarpsins og menntamálayfirvöld og fjárveitingavaldið eigi nú að setjast yfir þessi mál. Það eigi að vinda ofan af þessari öfugþróun, það eigi að kalla þetta fólk aftur inn til starfa sem var sagt að hætta, fékk uppsagnarbréf og við eigum að reyna að ná sátt um Ríkisútvarpið. Það á að ríkja sátt um Ríkisútvarpið. Ég er búinn að verja Ríkisútvarpið í langan tíma, mörg ár, áratugi. Ég hef ekki alltaf verið sáttur við Ríkisútvarpið, því fer fjarri og það á við að sjálfsögðu um okkur öll þó að við séum sátt eða ósátt eftir atvikum af mismunandi ástæðum og af mismunandi tilefni. Þannig er bara lífið. Þetta er fjölbreytt stofnun og við erum með margbreytilegar skoðanir og það er ekkert einhlítt í því efni, alls ekki. Ekkert einhlítt í því efni en ef við erum sammála um að reka ríkisútvarp sem öfluga menningarstofnun þá eigum við líka að gera það. Þá eigum við að gera það og þess vegna hygg ég líka að það sem brýnt sé að gera núna það er að standa vörð um þessa mörkuðu tekjustofna.

Ég vil taka það fram að það þarf að vanda sig í þeirri umræðu. Mér finnst til dæmis sjálfum allt í lagi að innheimta tekjur fyrir ríkissjóð í gegnum eldsneytisskatta — mér finnst það — og nota þá til annarra hluta. Mér finnst það í lagi. Hins vegar þarf þá að vera búið svo um í lögum að ekki sé kveðið á um að ekki megi gera það. En varðandi tekjustofna eins og afnotagjöld Ríkisútvarpsins þá þurfum við að vanda okkur, til aldraðra og svo framvegis. Það var þannig að sett voru aðflutningsgjöld á sjónvarpstæki á sínum tíma til að fjármagna nýja útvarpsbyggingu. Ég held það hafi aldrei farið ein einasta króna og ég held að þetta sé eitthvað sem er ekkert bundið við eina ríkisstjórn. Það er það alls ekki. Þetta hefur tíðkast í gegnum tíðina af hálfu allra stjórnmálaflokka, hygg ég, þannig að ég vil að það sé skilið rétt sem ég er að segja hvað þetta snertir en mér finnst þetta vera prinsippmál.