143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[20:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þetta síðasta, það að kostnaðarþátttakan sé að vaxa, þá er það hárrétt, en hvaða ríkisstjórn var þá við völd? Hverjir studdu þá ríkisstjórn? Var það ekki hv. þingmaður? Í fjögur ár hefur kostnaðarþátttakan verið að vaxa að mínu mati. Þessi skýrsla sýndi það líka og það er það sem við ætlum að reyna að taka á. Í fyrsta lagi sagði hv. þingmaður að ég væri útblásinn af lofti, það þótti mér enn þá verra, (ÖJ: Ákafa.) ákafa og lofti. Það þótti mér öllu verra, þetta er ekki mjög málefnalegt og ég ætti að taka það nærri mér. Á bak við þetta allt saman, bara svo að það sé haft á hreinu, er það að Íslendingar eru að borga 75 milljarða kr. á ári í vexti. Eitt stykki spítala á hverju einasta ári er íslenska ríkið og við skattgreiðendur að borga á ári hverju í vexti. Og til þess að ná vöxtunum niður þurfum við að ná skuldunum niður og til þess að ná þeim niður þá verðum við að ná halla ríkissjóðs niður.

Það er það sem þetta gengur allt út á. Við höfum farið hér í gegnum mörg erfið og allt að því leiðinleg mál í dag. Við þurfum að greiða atkvæði um að vera á móti þessu og móti hinu og móti þessu o.s.frv. og stjórnarandstaðan gerir okkur ekki beint létt fyrir. Og af hverju? Til þess að ná þessum vaxtagjöldum niður, til þess að við séum ekki að borga einn spítala fullbúinn á hverju einasta ári í vexti. Það er þess vegna sem við leitum leiða með legugjöld en inn í það kemur líka ákveðið jafnræði sem ég mun koma inn á á eftir. Ég ætla að fara sérstaklega í gegnum það, ég ætla að loka umræðunni með ræðu. Ég er framsögumaður, ég er búinn að vera viðstaddur alla umræðuna, hverja einustu mínútu og ég ætla að loka umræðunni. Ég hef farið í andsvör þegar mér þykir henta og svo ætla ég að loka umræðunni á eftir með ræðu.