143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[20:34]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að reyna að vera viðstaddur þegar hv. þingmaður lokar umræðunni hvort sem það verður á morgun eða hvenær sem það mun eiga sér stað. En það er eitt sem er alveg ljóst, að þessari umræðu verður ekkert lokið rétt sisona. Það verður ekki gert. Það er alveg af og frá þegar verið er að fara með heilbrigðiskerfið hér inn á nýjar slóðir.

Hv. þingmaður vék að síðasta kjörtímabili og kostnaðarþátttöku sjúklinga. Ég fór miklu lengra aftur. Ég gerði hið sama og Ingimar Einarsson gerði, sérfræðingurinn sem fór að kanna þessi mál. Hann fór miklu lengra aftur. Ég fór að vísa til þess sem gerðist hér í upphafi tíunda áratugarins og fór síðan smávaxandi og jókst stig af stigi. Ingimar Einarsson staðnæmdist ekki við síðasta kjörtímabil. Hann horfði einnig til áranna þar á undan, þegar stærstu skrefin voru stigin. Vegna þess að í sumum efnum þá var snúið til baka. Ég afnam til dæmis sem heilbrigðisráðherra gjöld af þessu tagi sem fyrri ríkisstjórn, þá fyrrum heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins, hafði sett á Landspítalanum.

Við vorum því mjög meðvituð um hve varasamt væri að fara inn á þessar brautir með aukinni kostnaðarþátttöku sjúklinga. Og þegar talað er um jafnræði þá á jafnræðið einfaldlega að felast í því að allir sjúklingar eigi að búa við jafn góðan hlut og það eigi að vera ókeypis. Heilbrigðiskerfið á að vera ókeypis. Það á að jafna byrðunum niður en það á fyrst og fremst að láta þá sem eru heilir heilsu og vinnufærir greiða en ekki bíða eftir því að þeir verði veikir og rukka þá þá við dyr Landspítalans og annarra sjúkrastofnana í landinu.