143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[20:38]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er von að hv. þingmaður spyrji vegna þess að þetta er allt mjög óljóst. Ég vitnaði hér í blaðafrétt frá þriðjudeginum þar sem vísað er í ummæli hv. þm. Péturs H. Blöndals, sem er framsögumaður í þessu máli, og í fréttinni segir, með leyfi forseta:

„Pétur kvaðst ekki hafa séð útreikninga um hvað komugjaldið á að vera hátt en það yrði ákveðið í reglugerð.“

Ég hef ekki orðið var við leiðréttingarbeiðni af hálfu hv. þingmanns í Morgunblaðinu þannig að þetta hlýtur að standa. Hann veit því ekki, framsögumaður málsins hér á Alþingi, hvað þetta þýðir samkvæmt þessari frétt. Nema hann hafi mótmælt því og vilji skýra það fyrir okkur í lokaræðu sinni á morgun, hvað sé rétt í því efni.

Ég tek undir með hv. þm. Helga Hjörvar að það er grafalvarlegt mál ef verið er að færa í lög heimildir til ráðherra, sem eru mismunandi pólitískt þenkjandi, til að véla með þessi mál að eigin geðþótta. Það tel ég vera alvarlegt mál. Ég benti á að það væri ekki í samræmi við málflutning hv. þm. Péturs H. Blöndals í gegnum tíðina vegna þess að hann hefur verið prinsippfastur í þeim efnum og þá er ég ekkert að gera neitt grín, mér er full alvara með því, hann hefur verið það. Þess vegna kemur það mér á óvart að hann skuli vera með þennan málflutning á þingi og standa fyrir annarri eins lagasmíð og verið er að bera á borð fyrir Alþingi.