143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[21:05]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka …

(Forseti (ÞorS): Afsakið, hv. þingmaður, forseti átti að geta þess að nú eru þrír þingmenn sem hafa beðið um að veita andsvar þannig að ræðutími er tvær mínútur í fyrri og ein mínúta í seinni umferð. Biðst forláts. Hv. þingmaður, gjörðu svo vel.)

Ég biðst forláts á að hafa flýtt mér um of í stólinn.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Hún ræddi um það vandamál sem okkur hefur verið tíðrætt um hér í dag, sem er niðurskurður á jafnt Tækniþróunarsjóði og rannsóknarsjóðum og sérstaklega í þessu frumvarpi varðandi frádráttinn á rannsóknar- og þróunarstarfsemi.

Hún ræddi í þessu samhengi hönnunarþáttinn sem er auðvitað mikilvægur þáttur, en menn gleyma því oft hversu nærtækar þessar heimildir eru fyrir atvinnusköpun. Af því ég átti þess nú kost í haust að ferðast mikið um kjördæmi hv. þingmanns er mér ofarlega í huga heimsókn í hið góða fyrirtæki 3X á Ísafirði. Það var ótrúlegt að upplifa þá þekkingu sem þar er og þá gríðarlegu tæknivæðingu fiskvinnslu sem fyrirtækinu hefur tekist að búa til, allt úr eigin hugviti, fyrst og fremst í krafti þeirra heimilda sem hér er verið að leggja til að skerða. Þarna voru ný tæki til þess að kæla fisk með áður óþekktum hætti til að auka vinnslugæðin og tryggja lengri líftíma, alls konar tækjabúnaður jafnt um borð í skipum sem og í frystihúsum gerir þetta allt kleift. Það sem þeir voru að biðja um var frekari útvíkkun á þessu kerfi. Þeir voru t.d. að biðja um að fjárhæðarmörk sem eru á neðri kantinum í frádrætti á rannsókn og þróun yrðu afnumin svo að litlu verkefnin þeirra gætu líka fallið þarna undir.

Ég vildi bara (Forseti hringir.) spyrja hv. þingmann hvort hún hefði ekki orðið vör við árangurinn af þessari tækniþróun í sínu kjördæmi með sama hætti og ég.