143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[21:07]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega hef ég orðið vör við þann kraft og það afl sem hefur fylgt því fyrirtæki sem hv. þingmaður nefnir. Það hefur í raun og veru gjörbreytt atvinnumynstrinu á svæðinu. Það hefur þjónað fiskvinnslunni og unnið og hannað og þróað tækninýjungar í samstarfi við greinina sjálfa, sjávarútveginn, og verið í útflutningi og markaðssett sig. Mikill drifkraftur og afl hefur verið í þessu fyrirtæki. Eins og hv. þingmaður segir skiptir svona aðgerð af hálfu ríkisins auðvitað miklu máli og hefur verið eitt af því sem hefur valdið því að þetta fyrirtæki hefur vaxið og dafnað.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að við eigum miklu frekar að víkka þetta út en að draga lappirnar þar sem við sjáum sýnilegan árangur sem skilar sér út í samfélagið aftur með fjölgun starfa, aukinni framleiðslu fyrirtækja sem skilar sér í hagvexti í landinu og tekjum fyrir okkur öll. Þetta hefur það mikil margfeldisáhrif að það er eiginlega óskiljanlegt hvað fólk er að hugsa þegar það velur að skera niður þá vaxtarbrodda sem eru ekkert annað en uppspretta auðs fyrir okkur öll í framtíðinni.