143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[21:10]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að allar slíkar útfærslur og hugmyndir sem spretta frá þeim sem eru í fyrirtækjum sem vinna að nýsköpun eigi að skoða af fullri alvöru og kanna hvort þar sé ekki eitthvað sem er öllum til hagsbóta.

Ég vil nefna aðra atvinnugrein eins og íslenska tónlist. Hún hefur fengið stuðning frá ríkinu. Það er ekkert smáræði sem íslensk tónlist hefur í raun aflað fyrir íslenskt samfélag. Stuðningurinn hefur haft margfeldisáhrif. Íslensk tónlist er orðin útflutningsvara og skilar samfélaginu miklum tekjum. Þar held ég að Ríkisútvarpið hafi mikið að segja því að það hefur komið mörgum tónlistarmönnum á framfæri, svo að við minnumst nú á þá góðu stofnun sem ég náði ekki að koma inn á í ræðu minni. Við þurfum að (Forseti hringir.) styðja við ýmsar greinar eins og útflutning á íslenskri tónlist sem skilar sér margfalt til baka, eins og Iceland Airwaves er gott dæmi um.