143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[21:28]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að taka undir þessa ósk vegna þess að það eru orðin ansi mörg kvöld í röð sem við þingmenn höfum verið hér núna. Af því að hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir er í salnum varð mér hugsað til þess, og það er ástæðan fyrir því að ég kem hingað upp í kjölfar þessara tveggja sem á undan mér fóru, að hún sagði okkur skemmtilega frá þingi sem hún var á, kvennaþingi. Heimssamtök þingkvenna hittust í Brussel nýverið og hún var að segja okkur hvernig þingkonur annars staðar í heiminum sögðu frá því hvernig þær hefðu komið sér upp fjölskylduvænna þingi í sínum heimalöndum.

Kannski ætti hæstv. forseti að eiga fund með þeim konum sem voru á þessu kvennaþingi til að fá upplýsingar um með hvaða hætti best væri að gera þetta. Það er allt í lagi eitt og eitt kvöld, en þegar þetta er orðið viðvarandi ástand kvöld eftir kvöld getum við sagt að fjölskylduvæni takturinn sé farinn úr okkar háa Alþingi. Hugmyndirnar eru til staðar og fullt af konum með þekkingu á málinu.