143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[21:30]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hún er um margt mjög áhugaverð umræðan sem hér fer fram vegna þess að hún snýst ekki bara um nákvæmlega það sem er í þessu frumvarpi. Þetta er frumvarp sem tengist og er forsenda fyrir tekjuhlið fjárlaga næsta ára. Hér er því um gríðarlega stórt mál að ræða.

Þegar nýja ríkisstjórnin tók við þá óttaðist ég að hún mundi detta í sama far og menn voru í hér á árum áður þegar Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur voru saman í ríkisstjórn í vel á annan áratug. Þá sáum við samfélag okkar taka mjög skarpa beygju til hægri og sjá mátti að tekjuskiptingin var orðin gríðarlega ójöfn, gríðarlegur ójöfnuður var orðinn. Og þegar okkur vinstri stjórninni hafði tekist að minnka þennan mun, þannig að hér mælist sannarlega aukinn jöfnuður, þá sjáum við strax hér á fyrsta frumvarpi nýrrar ríkisstjórnar í hvaða átt menn eru að fara. Menn eru að fara beinustu leið í sama gamla farið, í átt að auknum ójöfnuði í íslensku samfélagi.

Það verður að segjast eins og er að það vefst ekki fyrir mönnum, og ég ætla ekki að fara að taka enn og aftur ræðuna um það, að rjúka til og hið fyrsta sem þeir gera á sumarþingi er að drífa sig að afsala sér tekjum í ríkissjóð frá þeim sem eru með einkaleyfi til að nýta auðlindir þjóðarinnar. Síðan er mætt hér til leiks að hausti og breiðu bökin eru svo sannarlega fundin. Þau finnum við í þessu frumvarpi og í breytingartillögum meiri hlutans. Breiðu bökin eru námsmenn — af því að hv. þm. Willum Þór Þórsson talaði hér áðan um það að ríkisstjórnin væri að lækka skatta þá er hún að nafninu til að lækka skatta. Það er verið að lækka skattprósentur í milliþrepi, það er rétt og það er vel. En til að sækja það til baka hækka menn skráningargjöld á námsmenn í háskóla og þeim er ekki skilað að fullu inn til háskólans sjálfs eins og á að gera heldur er verið að taka skráningargjöldin inn í ríkissjóð. Þetta þýðir á hreinni íslensku að verið er að leggja skatt á námsmenn, það er verið að fjármagna ríkissjóð með fjármunum frá námsmönnum.

Þá verðum við líka að nefna annað breitt bak sem menn hafa fundið hér. Það er að leggja á sjúklingagjöld eða komugjöld inn á sjúkrahús. Þarna eru aldeilis breiðu bökin, námsmenn og sjúklingar. Þetta er leiðangur sem mér líkar afar illa að haldið sé í.

Þeir sem leggjast inn á sjúkrahús nú til dags eru afar veikir, það er ekki lengur þannig að menn liggi inni á spítala í lengri tíma heldur er það frekar orðið þannig, vegna læknavísindanna og framþróunar þeirra, að menn eru hafðir eins mikið á fótum og mögulegt er og ekki lagðir inn nema í lengstu lög. Þegar fólk kemur inn á sjúkrahús þá er það mjög veikt eða þá að það þarf á aðstoð að halda sem ekki fæst utan þess. Þegar þangað er komið er þetta fólk iðulega búið að greiða töluvert mikið af alls kyns kostnaði í gegnum heilbrigðiskerfið og heilbrigðisþjónustuna en þá finnast mér það nú ansi dapurleg skilaboð frá hinu opinbera að segja við þetta fólk: „Vær så god.“ Nú skalt þú borga komugjald þegar þú leggst inn á sjúkrahús.

Virðulegi forseti. Það er þekkt leið hægri manna að gera þetta svona og hægri stjórna og því þykja mér það öfugmæli þegar menn halda því fram að verið sé að lækka skatta vegna þess að það er bara verið að færa skattheimtuna til, það er verið að færa hana frá milliþrepinu yfir á námsmenn og sjúklinga.

Menn ætla svo líka að sækja sér tekjur í gegnum nefskatt sem ætti að fara allur til Ríkisútvarpsins. Honum er ekki skilað öllum þangað þannig að þeir sem greiða hann, það greiða allir jafna krónutölu, það er engin tekjutenging í því. Þeir sem eru með milljón á mánuði greiða það sama í nefskatt og þeir sem eru með 200 þús. kr. á mánuði. Finnst okkur það sanngjarnt? Sérstaklega þegar staðan er orðin sú að menn ætla sér sannarlega ekki að nota nefskattinn til reksturs Ríkisútvarpsins að fullu heldur er haldið áfram að skera Ríkisútvarpið niður. Mér finnst þetta rangt, mér finnst þetta röng leið. Við eigum að vera með hreina skattlagningu þ.e. gagnsæja en við eigum ekki að fara svona krókaleiðir að því að sækja fjármagn inn í ríkissjóð. Ég er á móti því.

Annað atriði sem ég verð að nefna í frumvarpinu er það hvernig menn eru að gera breytingar á fæðingarorlofi. Ég er ekki sammála þeirri leið sem hér er verið að fara, þ.e. að verið sé að taka lenginguna til baka. Ég er sammála því að við verðum að hækka þakið, sannarlega. Ég tel að það hafi farið allt of langt niður í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem ég sat í. Ég held að við höfum gert mistök með því og við höfum gengið allt of langt. Ég held að fæðingarorlofið hafi orðið of harkalega fyrir barðinu á niðurskurðinum sem við vorum í þá. En það voru erfiðir tímar og menn þurftu að taka á einhvers staðar. Og því miður varð Fæðingarorlofssjóður harkalega fyrir barðinu á því. En við erum byrjuð að hefja hækkun á þakinu á honum og það er vel. En það eru ekki þannig peningar sem menn spara með því að ætla sér að taka til baka þessa lengingu á fæðingarorlofi. Mér finnast rökin fyrir því líka mjög veik í nefndaráliti meiri hlutans.

Því hefur verið haldið fram að líklegt sé að konur mundu nýta lengra fæðingarorlof í meira mæli en karlar og þannig muni misrétti kynjanna aukast. En það fer auðvitað eftir því hvernig menn gera þetta. Ef lengingunni er deilt, eins og ætlunin var, jafnt á milli foreldra þá gerist ekki það sem hér er lýst og sérstaklega þegar við erum farin að hækka þakið samhliða. Við eigum auðvitað að horfa til Norðurlandanna. Þau eru með lengra fæðingarorlof fyrir báða foreldra, öll Norðurlöndin, lengra en hér á landi og ekki er hægt að segja að þar hafi kynjamisrétti aukist neitt sérstaklega. Þvert á móti. Þar fyrir utan snýst þetta líka um blessuð börnin.

Það er eins með þetta og annað sem ég ætlaði að koma hér inn á áðan, sem varðar nýsköpun í samfélagi okkar, að mér finnst menn vera að taka ákvarðanir um að slá striki yfir framtíðina, áætlanagerð til framtíðar litið og stefnumörkun til framtíðar litið. Mér finnst það skammsýn aðgerð að stytta fæðingarorlofið aftur eða draga til baka lengingu. Ég held því miður að þá munum við sjá eftir því síðar meir og ég vona að okkur takist að fara betur yfir þetta.

Í meirihlutaálitinu er sagt: Kom sú skoðun fram að lenging fæðingarorlofs mundi ekki leiða til aukinnar töku feðraorlofs enda væru hámarksgreiðslur of lágar. — Af hverju er þetta bara skoðun? Af hverju fáum við ekki að sjá hvað liggur að baki þessum fullyrðingum í nefndarálitinu? Ég hefði viljað fá að sjá hvaða gögn liggja þarna að baki. Við þurfum að sjá greiningar á þessu áður en við stígum þau skref að vera eftirbátar nágranna okkar hvað þetta varðar.

Þetta snýst líka um fjölskyldupólitík. Ég hef stundum heyrt hv. framsóknarþingmenn lýsa því yfir, og síðast nú nýverið, að Framsóknarflokkurinn sé fjölskylduflokkur. Ég ætla ekki að gera neitt grín að því eins og gert hefur verið víða á vefmiðlum heldur ætla að taka það alvarlega því ég hef séð merki þess svona í og með. Þá þykir mér undarlegt ef Framsóknarflokkurinn ætlar að taka þátt í þessum gerningi, þ.e. að koma í veg fyrir að lenging á fæðingarorlofi taki gildi, vegna þess að fjölskyldupólitík snýst ekki bara um að ríkið og sveitarfélög búi til leikskóla, séu með menntakerfi og heilbrigðiskerfi sem sé í lagi heldur snýst þetta líka um að skapa samverustundir og að skapa börnunum okkar, framtíðinni, nægjanlegt sjálfsöryggi og öryggistilfinningu þannig að þau stigi inn í framtíðina full af öryggi og verði frábærir þjóðfélagsþegnar fyrir vikið.

Hvernig gerum við það? Það gerum við með aukinni samvinnu foreldra og barna. Út á það gengur fjölskyldupólitík og það er ekki að sjá í þessari ákvörðun hér að menn séu með þetta í huga þegar verið er að taka ákvörðun um að draga lengingu á fæðingarorlofi til baka. Þess vegna þykir mér þetta miður. Ég vona að ég fái að heyra hér betri rök frá framsóknarmönnum og þingmönnum Framsóknarflokksins fyrir því af hverju þetta er gert.

Virðulegi forseti. Tíminn flýgur og ég er hér með mál sem mig langaði líka að ræða og ég tel vera mjög mikið stórmál og það er hvernig verið er í þessu frumvarpi að taka ákvarðanir varðandi nýsköpunarmál og stuðning við rannsóknir og þróun í landinu. Þetta frumvarp er með einn anga af því máli, þeirri stefnubreytingu sem þessi ríkisstjórn stendur fyrir, út af þeirri braut að ætla að fara að styðja myndarlega við rannsóknir og þróun og nýsköpun hér á landi og inn á þá braut sem við vorum á sem var rétt undir því sem nægjanlegt var. Ef við ætlum að tryggja þéttan vöxt hér á Íslandi til lengri framtíðar þá verðum við að fara að byggja mjög vel undir nýja vaxtarsprota. Það er bara því miður þannig að auðlindir eru takmarkaðar, hugmyndir hins vegar ekki.

Við erum alltaf að kljást við náttúruna þegar kemur að hinum náttúrulegu auðlindum en við höfum reitt okkur á þær hingað til. En svo fjölgar okkur Íslendingum, samfélagið verður flóknara og við þurfum fleiri greinar til að standa undir útflutningi og vexti á Íslandi. Það er þess vegna sem við lögðum af stað í fjárfestingaráætlun, síðasta ríkisstjórn. Það var til að styðja betur við nýjar vaxtargreinar og reyna að sýna einhverja langtímahugsun til tilbreytingar, stefnumörkun til lengri tíma litið sem gæti skilað okkur jafnari og þéttari vexti fram í tímann. Af slíkri braut eru menn að fara með þeirri ákvörðun sem tekin er í þessu frumvarpi og í breytingartillögu meiri hlutans og líka í ákvörðunartöku um það í fjárlagafrumvarpi að lækka framlög til Tækniþróunarsjóðs og Rannsóknasjóðs.

Í frumvarpinu er lagt til að í staðinn fyrir 20% endurgreiðsluviðmið verði það 15%. Það er tekin ákvörðun um það hér að fara af þeirri braut vegna þess að það komi sér ekki vel fyrir minni sprotafyrirtæki. Í staðinn ætla menn að setja þak á hámarksendurgreiðslu í krónutölu. Það þýðir hins vegar fyrir stóru fyrirtækin, sem eru sannarlega í góðum öflugum rekstri, reka oft öflugar þróunardeildir og eru þátttakendur í þróunarverkefnum — stundum eru þau bara innan fyrirtækjanna en stundum er það líka milli fyrirtækja og líka í samstarfi við háskóla- og vísindasamfélagið — að þetta mun hafa veruleg áhrif á þau. Stóru fyrirtækin — á íslenskan mælikvarða eru þau kannski stór en á erlendan mælikvarða ekki en við erum að tala um stöndugri fyrirtæki sem eru að taka þátt í og drífa rannsóknir og þróun áfram hér á landi — hafa verið að nýta þennan stuðning og hafa getað skapað með þeim fjöldann allan af störfum.

Virðulegi forseti. Hér á landi þurfum við að fara að byggja og styðja betur við þá stoð sem er svokallaður alþjóðageiri. Ég veit ekki hvort það er orðið sem lýsir því best en þetta er svona útflutningur á hugviti, vegna þess að þar liggur framtíð okkar. Menn voru farnir að sjá þetta fyrir löngu en einhvern tíma þurfum við að byrja að leggja grunninn að þessu. Það er kominn vísir að því en við þurfum að gera miklu meira. Það kerfi sem við bjuggum til og verið er að byrja að skera niður var bara algert lágmarksupphaf sem við sáum þannig fyrir okkur. Núna eru menn að taka þetta lágmarksupphaf af kerfinu sem búið er að kalla eftir í meira en áratug, þ.e. endurgreiðslukerfi vegna rannsóknar og þróunar, og byrjaðir að veikja það strax á fyrsta missiri nýrrar ríkisstjórnar. Þetta eru ofboðsleg vonbrigði og þetta er líka svo mikil skammsýni, og nú ætla ég aðeins að fara yfir nokkrar tölur.

Í Fréttablaðinu í gær frekar en fyrradag er ágætisgrein þar sem verið er að fjalla um hvað það þýðir fyrir okkur að setja fjármuni í Tækniþróunarsjóð og í endurgreiðslu vegna rannsókna og þróunar. Tekið er dæmi um það að árið 2005 fengu 13 fyrirtæki styrk úr Tækniþróunarsjóði og þetta voru fyrirtæki sem veltu 20 milljörðum. En meðal annars vegna stuðnings úr Tækniþróunarsjóði gátu þau fyrirtæki farið út fyrir það sem þau voru að gera í kjarnastarfsemi sinni, búið til einingu sem gat haldið áfram, farið af stað með ný verkefni. Þessi fyrirtæki eru í dag að velta 120 milljörðum. Þannig hafa þau stækkað og margfaldast á þessu tímabili vegna framlaga úr Tækniþróunarsjóði.

Endurgreiðsla á rannsókna- og þróunarkostnaði hefur nákvæmlega sama tilgang. Hún hefur þann tilgang að styðja við rannsókn og þróun, bæði í nýjum fyrirtækjum en líka innan starfandi fyrirtækja, þannig að þau geti nýtt þá öflugu starfskrafta sem þar eru inni, þekkingu og reynslu, kallað til nýja aðila og haldið áfram og búið til nýja vöru, hvort sem það er í tækni eða þjónustu. Þetta á að veikja hér og það þykir mér alveg gríðarleg skammsýni.

Annað vil ég líka nefna. Gert var ágætt áhrifamat á Tækniþróunarsjóði, farið vandlega í gegnum það hverju hann væri að skila árið 2011. Niðurstaðan þar varð til dæmis sú að af öllum þeim verkefnum sem fengu stuðning úr Tækniþróunarsjóði höfðu 2/3 þeirra skilað sér í svokallaðri frumgerð. Frumgerð þýðir að kominn er vísir að vöru og þegar frumgerð liggur fyrir eru miklu meiri líkur en hitt að úr verði vörur sem skapi veltu og störf inn í framtíðina. Ég sakna þess að menn rökstyðji miklu betur hvers vegna verið er að gera þetta.

Ég vil líka nefna að tvö fyrirtæki hafa verið skoðuð — Magnús Orri Schram, sem var þingmaður Samfylkingarinnar, skrifaði ágæta grein þar sem hann fór yfir þetta. Hann tók dæmi um tvö fyrirtæki. Annað þeirra hafði hlotið rúmlega 100 millj. kr. í styrki frá stofnun fyrirtækisins yfir langt tímabil samtals en skatttekjur ríkisins af starfsemi þessa fyrirtækis höfðu á sama tíma numið 400 millj. kr. Það sem hafði verið sett inn kom því margfalt út. Það er þess vegna sem ég kalla þetta skammsýni og undir þau orð, hafa gagnrýnt þetta verulega, taka líka aðilar eins og Viðskiptaráð, ASÍ og fleiri aðilar sem sjá nákvæmlega það sama og við hin, það sem þessari ríkisstjórn virðist vera algerlega fyrirmunað að sjá í þeirri skammtímahugsun sem því miður virðist ráða för við ákvarðanatöku á þeim bæ.