143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[21:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hún var að tala um legugjaldið eða innlagnargjaldið eins og það heitir núna og talaði um að fólk væri mjög veikt þegar það væri lagt inn. Það er hárrétt. En það er líka fjöldi fólks sem er mjög veikur og er ekki lagður inn. Vegna nýrra aðferða við kviðsjáraðgerðir mætir fólk að morgni, fer í aðgerð, kviðsjáraðgerð, og er svo sent heimt. Það borgar fyrir aðgerðina líka og allt sem fylgir. Ég vil ekki fullyrða um að þetta fólk sé allt minna veikt en hinir, það er kannski krabbameinsveikt eða eitthvað slíkt, það er kannski ekki nógu mikið veikt. En svona aðgerðir eru í sívaxandi mæli afskaplega hagkvæmar bæði fyrir ríkið og fyrir sjúklinginn því oftast nær er betra að vera heima en á sjúkrahúsi, þó að dvölin á sjúkrahúsi sé óneitanlega mjög góð.