143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[22:07]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg klárt að ekki bara í þessu frumvarpi heldur líka fjárlagafrumvarpinu og fjáraukalagafrumvarpinu er verið að taka skref í átt að auknum ójöfnuði. Það vitum við og við sjáum það. Það er meðvitað. Það er meira að segja tekin ákvörðun um það og það var skýrt, það voru rök fyrir því að ákveðnir hópar lífeyrisþega fengu kjör sín bætt í sumar en lægstu hóparnir ekki. Það var gert vegna þess að menn ætluðu sér að breikka bilið aftur á milli ólíkra tekjuhópa. Þetta er þess vegna yfirlýst stefna.

Ég er sammála hv. þingmanni, ég hef ekki í langa tíð séð jafn hægri sinnaða ríkisstjórn, þ.e. jafn grímulausa. Ég sakna þess að sjá félagshyggjuhlið Framsóknarflokksins í þessu stjórnarsamstarfi vegna þess að hún hefur orðið algjörlega undir — ef hún er enn til.