143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[22:38]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er fróðleg umræða og athyglisverð, sérstaklega þær áherslur sem frumvarpið leggur svona í heildina. Eitt af því sem kemur mjög skýrt fram er að menn eru svolítið að hverfa yfir í að nota nefskatta, sem eru krónutöluskattar, og nota þá svo í allt annað en þeim er ætlað. Það er einmitt það sem við höfum verið að ræða hér. Þar eru til dæmis þessi innritunargjöld sem hér voru rædd og heita, eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson benti réttilega á, einhverra hluta vegna nú orðið skólagjöld, sem ætti að gera þau lánshæf hjá lánasjóðnum ef því væri að skipta.

Mig langar aðeins að setja þetta í samhengi — af því við höfum verið að tala um fjölskyldufólk og að bæta hag þess — við 0,7% skattalækkun hjá meðalríkisstarfsmanni sem er með svona 325–350 þús. kr. í mánaðartekjur. Ef það heimili ætti að borga þessi gjöld sýnist mér að lækkunin á tekjuskatti muni ekki duga til að borga þau; ef við setjum þetta í eitthvert samhengi þannig að hagur þeirra fjölskyldna sem eiga börn í háskóla — ef foreldrarnir hjálpa þeim að borga gjöldin eins og oft er nú, þá dugir það ekki til.

Svo langar mig aðeins, kannski af því ég gat ekki hlustað á alla umræðuna og heyrði nú aðeins kynninguna — það eru þessi komugjöld. Er það rétt skilið og hefur það komið fram að með komugjöldunum eigi að taka sömu tekjur og áætlaðar voru í fyrstu útgáfu fjárlagafrumvarpsins í legugjöldum? Þá hlýtur komugjaldið að þurfa að vera býsna hátt. Ég get ekki séð að það sé tilgreint í upphæðum þannig að útfæra eigi það í reglugerð. Ef það á að ná sömu tekjum verður það að taka mið af einhverjum meðaldagafjölda þar inni og getur orðið býsna hátt, 4–6 þús. kr. eða jafnvel meira.

Mig langar aðeins að heyra sjónarmið þingmannsins af því hann hefur verið hér í umræðunni og fylgst með og við höfum ekki stjórnarþingmennina til að svara, ekki í öllum tilfellum.