143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[22:40]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst um það sem hv. þingmaður kom inn á og varðar hag fjölskyldufólks og áform um skattalækkanir. Ég held að það sé mjög mikilvægt að í umræðunni um skattalækkanirnar og áhrifin af þeim — talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa mikið talað um jákvæð áhrif og að verið sé að létta byrðum af fjölskyldufólki með því; þeir kvarta yfir því til dæmis að minn flokkur vilji ekki fara þá leið. Það verður að meta þessi áhrif heildstætt. Menn geta veitt einhverja skattalækkun með annarri hendinni, en tekið það sama eða jafnvel meira með hinni eins og t.d. með skólagjöldunum, með komugjöldum eða innlagnargjöldum á sjúkrahús, með verðlagshækkunum sem hér er verið að fjalla um o.s.frv.

Ég sakna þess því að einhver heildarmynd komi á áhrif allra þessara breytinga á hinar ýmsu fjölskyldugerðir. Og það kemur mér ekki á óvart það sem hv. þingmaður sagði hér að honum sýndist að lækkun á tekjuskattshlutfalli á fólk með meðaltekjur mundi ekki duga til þess að greiða þessi gjöld. Hvað þá ef það eru orðnir fleiri einstaklingar í háskólanámi innan sömu fjölskyldunnar. Mér finnst það ekki segja mikið að berja sér á brjóst og segjast vera að lækka skatta á miðlungstekjufólk en taka það svo kannski í miklu ríkari mæli annars staðar.

Varðandi komugjöldin eða innlagnargjöldin er ekkert, eins og ég les nefndarálit meiri hlutans, sem kemur fram um það að upphæðin sé önnur (Forseti hringir.) en lagt er upp með í fjárlagafrumvarpinu, en við því fáum við kannski frekari svör þegar við ræðum síðan fjárlagafrumvarpið sjálft.