143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[22:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að leyfa mér að lesa upp úr greinargerð með frumvarpinu, með leyfi frú forseta:

„Í frumvarpinu er lagt til að skrásetningargjald í opinbera háskóla verði hækkað úr 60 þús. kr. í 75 þús. kr. Áætlaðar viðbótartekjur af þeirri hækkun eru metnar 213 millj. kr. Ósk um hækkun skrásetningargjalda barst frá ríkisháskólunum með bréfi, dags. 26. ágúst 2013, til mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Árið 2012 samþykkti Alþingi hækkun á skrásetningargjöldum úr 45 þús. kr. í 60 þús. kr. fyrir hvern nemanda og var sú breyting rökstudd með tölulegum upplýsingum úr bókhaldi Háskóla Íslands. Í beiðni ríkisháskólanna nú kom fram að samkvæmt rauntölum úr bókhaldi Háskóla Íslands hefði skrásetningargjaldið þurft að vera um 69.600 kr. til að nægja fyrir útgjöldum sem því væri ætlað að standa undir og samkvæmt rauntölum úr bókhaldi Háskólans á Akureyri árið 2012 væri kostnaðurinn um 80 þús. kr.“

75 þús. kr. eru því bara nokkurn veginn kostnaður við skrásetninguna. (Gripið fram í: Fer ekki til háskólans.) Vissulega fer það til háskólans. En á hinn bóginn er framlagið til háskólans lækkað vegna þess að komið hefur í ljós, frú forseti, að það vantar aur í ríkiskassann, vantar verulega mikinn aur. (Gripið fram í.) Þess vegna þurfum við að gera ýmislegt sem er ekki vinsælt.

Á háskólaþingi haustið 2009 kom fram að fyrsta árs brottfall er 38%. Og nú skal einhver segja mér það, ef það kostaði ekkert að innrita sig í háskóla þá innrita menn sig bara og sjá svo til, og jafnvel í marga háskóla samtímis. Eftir því sem gjaldið er hærra þeim mun meiri þröskuldur er til að skrá sig. Þegar gjaldið er komið upp í 75 þús. kr. er hugsanlegt að menn hugsi sig um áður en þeir hverfa af braut úr námi eða þeir hugsi betur um að þeir ætli virkilega að stunda námið þegar þeir sækja um aðgang að háskóla.