143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[23:15]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur oft verið gaman að ræða við hv. þm. Pétur H. Blöndal, það er svo gaman af því að það er stundum eins og hann sé að missa af tekjum, hann sér einhverja tekjumöguleika í slösuðum einstaklingi sem kemur inn á spítala. Það hefði einhvern tíma þótt merkilegt ef við værum með þannig málflutning. Ég er að snúa svolítið út úr, ég skal viðurkenna það en mér finnst þetta sett þannig fram.

Við erum að ræða stóru línurnar, hvernig við ætlum að hafa þetta. Ég held að almennt séð sé það nú þannig að þeir sem liggja lengi á spítölum eru af eldri kynslóðinni og þeir sem eru langveikir og með langvarandi sjúkdóma. Það eru þeir sem taka mest plássið inni á spítölum og eru með flesta legudaga. Þá segir maður: Mikið af þessum sjúklingum eru í aðstoð reglulega þar fyrir utan þannig að ég held að menn megi ekki blanda þessu saman.

Ég flutti engan pistil um reglugerðir eða lög. Ég var aftur á móti að spyrja um hvað ætti að gera í þessari reglugerð. Það hefur verið gagnrýnt líka að lögin gefi ekki fyrirmæli um um hvað reglugerðin eigi að vera. Hv. þingmaður tók afar slæmt dæmi þegar hann tók lyfjafrumvarpið vegna þess að ég hugsa að það séu einu lögin á undanförnum árum þar sem reglugerð fylgdi. Hún fylgdi með lögunum. Og það er einmitt það sem ég er að tala um, þá fá menn að sjá hvað er verið er að gera, hvað stendur til. Svo getum við deilt um það. Við vitum alveg að það er hægt að breyta upphæðum og öðru slíku seinna meir o.s.frv. En gott er það ef við fáum tækifæri til að ræða það í þinginu. Ég geri mér grein fyrir því að þegar lög um heilbrigðismál voru samþykkt 2007 voru, að ég held, meira en 50 reglugerðarheimildir bara í þeim einu lögum. Þá var ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Ég held að það hafi verið fullmikið í lagt. Ég held að við eigum að sammælast um að reglugerðarheimildin verði byggð á lagaforsendum (Forseti hringir.) og það sé útskýrt hvað eigi að hafa í reglugerð.