143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[23:22]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu þar sem hann fór yfir nokkur atriði í því frumvarpi sem hér er til umræðu. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er ágæta reifun að finna bæði í nefndaráliti meiri hluta og minni hluta við þetta mál. Það sem mig langaði að inna hv. þingmann sérstaklega eftir lýtur að Fæðingarorlofssjóði, en hv. þingmaður kom að honum undir lok ræðu sinnar. Við getum sagt að meiri hlutinn velti upp ýmsum sjónarmiðum í umfjöllun sinni um fæðingar- og foreldraorlof. Þar kemur fram að hugsanlega muni lenging fæðingarorlofs ekki leiða til aukinnar töku feðraorlofs því að hámarksgreiðslurnar séu of lágar og það sé líklegt að konur nýti þetta í meira mæli en karlar og því muni misrétti kynjanna hugsanlega aukast. Síðan segir hér að aðrir hafi lýst öndverðum skoðunum og farið yfir ýmsar hugsanlegar ástæður, en í raun og veru átta ég mig ekki á því af hverju meiri hlutinn kemst einmitt að þessari niðurstöðu.

Ég átta mig á því að ýmsir hv. þingmenn hafa auðvitað þær skoðanir að þarna skipti tekjuhliðin máli. Við sem erum hér á barneignaraldri enn þá vitum hvernig þetta er, ég er búin að ganga í gegnum fæðingarorlof þrisvar á mjög skömmum tíma og ég er ekki viss um að það sé mín upplifun. Ég tel að stærsta vandamál okkar í raun og veru sem erum að eignast börn núna sé nákvæmlega það bil sem blasir við þegar fæðingarorlofi lýkur og ekki nokkra dagvistun er að fá nema að maður keyri jafnvel á milli enda höfuðborgarsvæðisins með tilheyrandi tilkostnaði og tilheyrandi tímaeyðslu fyrir samfélagið og þjóðhagslegum kostnaði.(PHB: Foreldraorlof.) Foreldraorlof dugir nú ekki til í það, hv. þingmaður.

Nú er ég að inna hv. þingmann, sem þekkir þetta mál mjög vel sem fyrrverandi hæstv. velferðarráðherra. Hann vitnaði hér í nýlegar (Forseti hringir.) skýrslur um málið og mig langar að biðja hann um að skýra aðeins nánar þessi sjónarmið.