143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[23:26]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að halda þessu máli áfram því að þetta var talsvert rætt á sínum tíma þegar áformin um lengingu fæðingarorlofsins voru samþykkt hér á þingi og þá var reynt að tryggja jafnræði karla og kvenna við töku fæðingarorlofsins. Hins vegar held ég að það sé rétt, sem hv. þingmaður kemur hér að, að almenn áhrif efnahagsþrenginganna hafa líklega orðið til þess að fleiri telja erfitt um vik að fara úr vinnu, ekki bara vegna þess að tekjur lækka heldur líka af því að fólk hefur hreinlega óttast um störf sín þó að þetta eigi að vera lögbundinn réttur fólks.

Þetta hefur því að sjálfsögðu haft áhrif og ég held að við getum ekki horft fram hjá því. En ég held að við getum heldur ekki horft fram hjá því að verulegt vandamál hefur orðið víða um land, og kannski sérstaklega hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu og höfuðborgarsvæðinu að brúa þetta bil.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, því að hann vann að hugmyndum um lengingu fæðingarorlofsins: Hvaða fyrirmyndir voru þar hafðar til hliðsjónar? Hvernig hefur reynsla annarra landa, til að mynda á Norðurlöndum, sem eru með lengra fæðingarorlof, nýst okkur í því? Hvaða sjónarmið hafa verið sett þar um tekjur, sem sagt í fæðingarorlofi? Ég spyr hvort hv. þingmaður geti aðeins upplýst okkur um það, það er í raun þangað sem við höfum verið að stefna.