143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[23:45]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Mér finnst fráleitt annað en að gera hlé á þessari umræðu. Ég verð þó að segja að ég er tilbúinn að vera hér í alla nótt ef menn ætla að sýna þá óbilgirni.

Þegar fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar kom fyrst fram og talað var um legugjöld, að veikt fólk yrði krafið greiðslu ef það yrði lagt inn á sjúkrahús, létu viðbrögðin í samfélaginu ekki á sér standa. Það var mótmælt úti um allt. Síðan stóðu menn í þeirri trú að þetta hefði verið dregið til baka, áttuðu sig ekki á því að í frumvarpinu sem við ræðum í dag var búið að læða þessu inn bakdyramegin í formi komugjalds eins og það hét. Ég held að samfélagið þurfi að átta sig á því hvað hér er á ferðinni. (JónG: Það voru sett …) Ef ríkisstjórnin heldur, hv. þm. Jón Gunnarsson, (JónG: 4 þús. milljónir.) (Forseti hringir.) að hún geti labbað í gegnum Alþingi Íslendinga og íslenskt samfélag með svona (Forseti hringir.) svívirðilega lágkúru eins og hér er boðið upp á er það mikill misskilningur. (Gripið fram í.) Ég skal vera hér í alla nótt og allan morgundaginn og alla helgina til að ræða það en þið munuð ekki komast upp með þetta.