143. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[00:10]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla ræðu. Það er margt í henni sem vert væri að koma inn á og hér eru margir þingmenn sem reyndu að komast í andsvar við hv. þingmann. Hv. þingmaður minntist á fjölmörg atriði þar sem þörf er á auknum útgjöldum ríkissjóðs; það er RÚV, fæðingarorlofsmálin og ýmislegt fleira sem tekið var til. En hvar á að auka tekjurnar?

Ég hef heyrt á það minnst að vinstri grænir leggja mikið upp úr því að skattleggja sjávarútveginn og atvinnulífið meira. En er það sú tekjulind sem standa á undir öllum þeim hugmyndum sem þingmenn flokks hv. þingmanns, þ.e. þingmenn Vinstri grænna, hafa talið upp hér í ræðustól og talað gegn í umræðunum um fjáraukann og liggur í loftinu varðandi fjárlögin?