143. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[00:12]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og spurninguna. Við hv. þingmenn Vinstri grænna stöndum að breytingartillögum við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar þar sem við leggjum í senn til útgjaldaaukningu, eins og hv. þingmaður nefnir, og tekjuöflun. Við teljum, og það lá fyrir fyrir kosningar þannig að við leggjum í raun og veru fram sömu stefnu og við lögðum fram fyrir kosningar, að það sé, já, eðlilegt að tekin séu sanngjörn auðlindagjöld. Menn eru ekki sammála um hver þau eigi að vera. Við teljum að þau geti verið hærri en þau sem núverandi ríkisstjórn leggur til. Við teljum að hægt sé og sanngjarnt og eðlilegt að innheimta hér hærra auðlindagjald af sjávarútveginum, útgerðinni, og það muni ekki hafa áhrif á afkomu hans. Við höfum auðvitað rætt það.

Við teljum líka eðlilegt til að mynda að ferðaþjónustan, blómstrandi atvinnuvegur, borgi hærri virðisaukaskatt og við teljum líka að það sé eðlilegt, eins og við sögðum fyrir kosningar, að fresta skattalækkunum á millitekjuþrep. Við teljum að (Forseti hringir.) ekki sé svigrúm til þess fyrr en síðar á þessu kjörtímabili.