143. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[00:23]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að skatttekjur eigi að standa undir almannaþjónustunni, að það eigi að vera grunnurinn sem við byggjum á. Síðan er ég þeirrar skoðunar að það geti gilt önnur sjónarmið og þá hef ég nefnt útvarpsgjaldið sem dæmi út af hinu sérstaka hlutverki fjölmiðla í lýðræðissamfélagi.

Almennt séð tel ég að eðlilegt sé að byggja samfélag þannig að við leggjum til út frá því hvaða tekjur við höfum inn í samfélagsuppbygginguna og séum þá ekki að rukka fyrir innlagnir á spítala eða ganga hart fram í gjaldtöku á námsmenn eða aðra hópa sem tvímælalaust eru ekki hátekjuhópar í samfélaginu, eins og stúdentar. Það sem mér finnst kannski grátlegast við þetta er að þessi gjöld voru hækkuð fyrir tveimur árum. Hér er verið að hækka þau aftur. En þá höfðu þau ekki verið hækkuð í talsvert langan tíma og það var sú þróun sem hér hafði verið uppi frá því að þessum gjöldum var komið á, menn voru mjög íhaldssamir í að hækka þau, ekki síst vegna þess að stúdentar eru eins og við vitum ekki tekjuhár (Forseti hringir.) hópur. Mér finnst leitt að við séum að hverfa af þeirri braut.