143. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[00:29]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég lít á það frumvarp sem við ræðum hér sem hluta af stærri spyrðu. Við höfum verið að ræða fjáraukalög og senn munum við taka til við umræðu um fjárlögin sjálf en allt er þetta hluti af sama pakkanum. Nú er stefnt að því að ljúka afgreiðslu þessara mála fyrir jól, fyrir lok næstu viku. Reyndar var hugmyndin sú að ljúka þingstörfum á fimmtudag en ég held að fáir trúi að það muni ganga eftir.

Er þetta langur tími sem við höfum til stefnu? Nei, þetta er mjög skammur tími sem við höfum til stefnu. Ég tel að þessi umræða þyrfti að verða tíu sinnum lengri, ekki vegna þess að okkur skorti mínútur til að koma röksemdum okkar á framfæri heldur vegna hins, að við þurfum að kveikja umræðu um þær breytingar sem hér er verið að boða úti í þjóðfélaginu. Ég held að það sé mjög mikilvægt lýðræðisins vegna. Ég held til dæmis að ein ástæðan fyrir því að ákveðið var að draga til baka fyrirhugaða skerðingu á framlagi til rannsóknasjóðs Rannís og í Tækniþróunarsjóðinn hafi verið umræða, ekki aðeins hér í þingsal heldur einnig úti í þjóðfélaginu. Samtök atvinnulífsins tóku málið til skoðunar og Samtök iðnaðarins, sérstaklega hvað varðar Tækniþróunarsjóðinn. Vísindamenn ræddu hvaða afleiðingar það hefði ef þessar skerðingar næðu fram að ganga. Ungir vísindamenn höfðu sig sérstaklega í frammi enda stóð málið þeim nærri eðli máls samkvæmt. Um var að ræða launagreiðslur til þeirra. Markáætlunin var hins vegar slegin af. Lagt var til að skerða framlagið til hennar um 200 milljónir og það var látið standa, þ.e. ákvörðun um skerðingu, því miður, en hinu var breytt og ég held að það sé vegna umræðunnar sem varð í þjóðfélaginu, ekki síður en umræðunnar hér. Þannig þarf þing og þjóð að kallast á og ég held að það sé mjög heppilegt.

Hið sama gildir um legugjöldin sem voru kynnt hér í tengslum við framlagningu fjárlagafrumvarpsins á sínum tíma sem urðu til þess að ályktanir bárust víðs vegar að úr þjóðfélaginu og menn kvöddu sér hljóðs og sögðu að slíkt mætti aldrei gerast á Íslandi, að þetta yrði innleitt, það yrði farið að rukka fólk fyrir að leggjast sjúkt inn á sjúkrahús. Þetta mætti bara ekki gerast. Menn vísuðu í skýrslur sem reiddar hafa verið fram, m.a. eina í sumar unna af Ingimar Einarssyni, sérfræðingi í heilbrigðismálum, sem sýndi fram á að á undanförnum áratugum, sennilega frá byrjun tíunda áratugarins og fram á þennan dag, hefði hlutdeild sjúklinga í heilbrigðiskostnaði aukist jafnt og þétt. Hann varaði við því að haldið yrði áfram á þessari braut og það fékk góðan hljómgrunn í þjóðfélaginu.

Ég minnist þess að skoðanakannanir sem gerðar hafa verið á afstöðu Íslendinga til skattlagningar hafa allar verið á þann veg að yfirgnæfandi meiri hluti hefur verið því fylgjandi að greiða háa skatta, jafnvel hærri skatta ef það yrði tryggt að féð rynni til heilbrigðisþjónustunnar. Margar skoðanakannanir hafa verið gerðar í þessa veru. Þess vegna þarf þjóðin að fá glöggar upplýsingar um það núna hvernig ríkisstjórnin ætlar bakdyramegin að fara með legugjöldin sem þorri manna taldi að væri úr sögunni. Það á eftir sem áður að koma þeim á og það á að innheimta sömu upphæð þegar á heildina er litið, um 200 millj. kr., með þessum hætti jafnvel þótt forminu hafi verið breytt. Í stað þess að innheimta fyrir hvern legudag á að innheimta fyrir komu, óháð því hve lengi menn eru á sjúkrahúsi. Hver er þá meðaltalsreglan sem stuðst var við? Síðan kemur í ljós þegar nánar er að gáð að allt þetta á eftir að útfæra og það á að ákveða með duttlungavaldi ráðherra hversu há þessi gjöld eiga að vera. Framsögumaður málsins hér á þingi, hv. þm. Pétur H. Blöndal, segist ekki hafa séð neina útreikninga þar að lútandi og það er ætlast til að við göngum til þess að samþykkja lög um þetta án þess að nokkur maður viti hvað hann er að tala um. Þetta er ofan á það að við erum að ráðast í kerfisbreytingu sem ég tel mjög varasama.

Síðan spyr ég um Ríkisútvarpið. Hvað skýrir þessa heift ríkisstjórnarinnar í garð Ríkisútvarpsins? Er þetta gamall draugur að rísa upp aftur? Ég veit alveg hvað ég er að tala um. Ég starfaði á fréttastofu Ríkisútvarpsins í tíu ár, frá 1978–1988. Ég man eftir öllum hringingunum sem komu, sérstaklega frá sjálfstæðismönnum. Ég gæti nefnt marga þingmenn hans og ráðherra sem hringdu á fréttastofur Ríkisútvarpsins til að reyna að terrorísera menn. Ég hélt að þetta væri allt úr sögunni þegar við vorum upplýst um það að jafnvel bara fyrir fáeinum árum kallaði einn ráðherra Sjálfstæðisflokksins þingfréttaritara Ríkisútvarpsins heim til sín til að hella sér yfir hann. Ég spyr: Er það þetta sem skýrir aðförina að Ríkisútvarpinu núna, pólitísk heift Sjálfstæðisflokksins, sem ræður nýlega borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins til að taka að sér rándýran þátt í sjónvarpi á sama tíma og reknir eru margir mætustu starfsmenn stofnunarinnar, sagt að snáfa heim, þulir Ríkisútvarpsins, vandaðir dagskrárgerðarmenn, bestu fréttamenn stofnunarinnar látnir fara? Ætlar ríkisstjórnin og þingmeirihlutinn að láta þetta óátalið, ætlar hann að horfa upp á þetta ranglæti, þessa pólitísku aðför að Ríkisútvarpinu? Þetta verður ekki skilið á annan veg en þann að Sjálfstæðisflokkurinn sé í pólitískri aðför að Ríkisútvarpinu. Hann velur að reka nokkra vönduðustu starfsmenn stofnunarinnar, segir þeim að hundskast heim, láta loka tölvunum sínum eins og gerist í verstu búllum. Þeir sem andæfa þessu ekki hér í þessum sal eru samsekir. Allt þetta þarf að ræða miklu betur og þyrfti að ræða miklu betur en tóm gefst til á þeim fáeinu dögum sem eru til jóla þegar menn ætla að reyna að ljúka afgreiðslu fjárlaga.

Ég verð að segja að við eigum eftir að heyra í verkalýðshreyfingunni, við eigum eftir að heyra í samtökum sjúklinga og við eigum eftir að heyra í almenningi á Íslandi. Er hann reiðubúinn að láta þessa ríkisstjórn komast upp með að fara að rukka fyrir það að fólk sé lagt inn á sjúkrahús á Íslandi? Ætla menn að láta þessa ríkisstjórn komst upp með það að innleiða slíka skatta?

Við heyrðum í dag þegar fjármálaráðherra landsins reis hér upp og sagði að það væri þröngt í búi, þess vegna væri ekki hægt að greiða atvinnulausu fólki desemberuppbót. Þetta eru sömu menn og þetta er sama ríkisstjórn (Gripið fram í.) og horfir upp á það að stærstu útgerðarfélögin í landinu greiða eigendum sínum milljarða í arð og taka sjálfir til sín mörg hundruð þúsund, milljónir jafnvel, í mánuði hverjum og auglýsa síðan gegn láglaunafólkinu sem er að leita eftir kjarabótum, fólk með innan við 200 þúsund á mánuði. Svo standa hér upp í röðum fulltrúar stjórnarmeirihlutans, berja sér á brjóst og segja: Erum við ekki góð? (Forseti hringir.) Dáist þið ekki að okkur? Erum við ekki að gera gott? (Forseti hringir.)

Nei, þið eruð ekki að gera gott.