143. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[00:40]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mér finnst það athyglisvert hvernig hann tengir saman þá tillögu sem við sjáum núna, um sjúklingagjöldin, þar sem ekkert hámark á að vera á því hvað hægt er að rukka fólk, öðrum þáttum í því sem ég vil kalla aðför stjórnarmeirihlutans að opinberri þjónustu. Mér finnst hægt að fella þetta allt undir sama hatt. Sjúkdómseinkennin eru þau sömu. Það er verið að hola að innan hina opinberu þjónustu með því að láta stúdenta borga fyrir þjónustu sem þeir fá ekki, láta fólk borga fyrir þjónustu Ríkisútvarps sem það síðan fær ekki. Fólkið verður vonsvikið. Fólkið hættir að vilja borga þessi gjöld og krafan kemur um annaðhvort að fella þau niður eða einkavæða reksturinn.

Það sem gerist líka á sama tíma er að verið er að flytja skattbyrðina, byrðina af rekstri þessara stofnana, yfir á skráningargjöldin, yfir í útvarpsgjöld. Þegar ríkið skammtar sér síðan í vaxandi mæli — eitt er að gera það sem neyðarráðstöfun í kjölfar hruns en að gera það núna á tímum vaxandi velsældar og betri möguleika ríkissjóðs — stóran hluta útvarpsgjaldsins þá er það að flytja skattbyrðina úr hinu almenna tekjuskattskerfi yfir í nefskatt. Það er verið að innleiða í vaxandi mæli nefskatta, nefskatta eins og þá sem blessunarlega komu Margréti Thatcher á hausinn. Það er sú aðferðafræði sem mér hugnast ekki. Það er verið að taka skattbyrðina úr tekjujöfnunarkerfinu, úr hinu almenna tekjuskattskerfi þar sem fátækt fólk nýtur persónufrádráttar, nýtur lægra skattþreps og nýtur ívilnandi aðgerða og flytja skattbyrðina yfir í nefskatt og á sama tíma að veikja hina opinberu þjónustu.