143. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[00:46]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt að ríkisstjórnin hefur létt sköttum af þeim sem kannski síst skyldi. Það má nefna líka auk útgerðarinnar auðlegðarskattinn sem gefur um 9 milljarða kr. Það er skattur á hreina eign hjá einstaklingi umfram 75 millj. kr. og 100 millj. kr. hjá hjónum. Sá skattur hefur verið gagnrýndur, sumpart réttilega, að hann hefði þurft og þyrfti að leiðrétta þannig að ýmsir agnúar, sem ég hef ekki tíma til að nefna, yrðu teknir af, ég tek undir að það mætti gera. En þarna er á ferðinni að mínum dómi réttlátur skattur, skattur á þá sem búa við sæmilega góð kjör, hafa góða eignastöðu. Síðan er það útgerðin og allir þeir skattar sem ríkisstjórnin er að afsala ríkissjóði og er þess valdandi núna að hún þykist ekki eiga fyrir því að borga desemberuppbót fyrir atvinnulaust fólk.