143. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[00:51]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held nefnilega að ég og hv. þingmaður höfum verið sammála um það hér á sínum tíma þegar Ríkisútvarpið var ohf.-vætt að það væri óráð vegna þess að það setti Ríkisútvarpið á mjög grátt svæði. Þetta er ríkisútvarp og er sannarlega á fjárlögum og ríkið sér um að afla því meginhlutans af tekjum þess. Ég hefði viljað að við tækjum okkur saman hér í þessum sal og reyndum að reyna að færa eignarhaldið eða rekstrarformið á Ríkisútvarpinu aftur í fyrra horf og tækjum það af þessum gráu, óræðu svæðum.

Ég held að þessi uppákoma núna gefi okkur ef til vill tækifæri til að ræða það aftur fyrir alvöru vegna þess að menn hafa ekki verið tilbúnir til að taka þá umræðu upp hér.

Aðeins varðandi sjúklingagjöldin þá er ég logandi hrædd um að þegar menn fara að opna fyrir komugjöld inn á spítalana séum við komin inn á einhverja vegferð þar sem það verði almennt (Forseti hringir.) að gjaldið eigi eftir að halda áfram að hækka stjórnlaust.