143. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[01:03]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Hér hefur ýmislegt verið rætt í kvöld og margir áhugaverðir punktar komið fram í þeim umræðum. Ég var nú að hugsa um að skauta aðeins yfir þau álit sem liggja fyrir og byrja á að fara yfir það sem kemur fram á fyrstu blaðsíðu í nefndaráliti meiri hlutans þar sem segir, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að kjarasamningar náist og að aukning kaupmáttar verði hófleg en starfandi fólki virðist vera að fjölga á vinnumarkaði og atvinnulausum að fækka.“

Því hefur verið haldið fram hér í umræðu, meðal annars um fjáraukalög, að heldur sé að síga á ógæfuhliðina aftur hvað varðar atvinnuleysi, að ekki sé hægt að greiða desemberuppbót vegna þess að atvinnulausum hafi fjölgað og sagt að sjóðurinn sé tómur, þannig að eitthvað stemmir þetta nú ekki.

Það væri líka áhugavert að vita á hverju menn byggja það að kjarasamningar náist. Ég var að tala við formann Starfsgreinasambandsins hér um daginn og hann var ekki bjartsýnn enda er búið að vísa samningum til sáttasemjara og mér heyrist ekki sérstaklega gott hljóð í þeim. Ekki eru það eingöngu Samtök atvinnulífsins sem þar eru gagnrýnd heldur einnig ríkisstjórnin, því að það sem hún hefur nú þegar lagt fram virðist ekki duga til þess að vekja bjartsýni um að samningar náist, og ég tel mjög varhugavert að setja svona fram.

Vissulega er það ósk okkar að ná samningum en það virðist ekkert vera í kortunum sem gefur slíkt til kynna þannig að mér finnst þetta sérstakt. En það væri líka áhugavert að vita hvað býr að baki þessu, hvort eitthvað hefur gerst undanfarna daga sem bendir til þess að þetta gangi eftir. Þetta er jú stór forsenda þess að efnahagsáætlunin sem hér er lögð fram, eða þessi hluti hennar, gangi eftir. Ef kjarasamningar verða lausir eftir áramótin og allt hið opinbera kemur svo þar á eftir þá vitum við alveg að mjög snúið getur orðið að leysa úr því.

Að öðru leyti langar mig að fara aðeins yfir það minnihlutaálit sem liggur fyrir frá efnahags- og viðskiptanefnd. Þar er einmitt gagnrýnt líka það sem ég var að fara hér yfir áðan. Þar kemur fram að aðilar vinnumarkaðarins hafa kallað á að opinberir aðilar haldi að sér höndum og stjórnarmeirihlutinn er gagnrýndur fyrir að sýna litla viðleitni hvað það varðar.

Varðandi nýsköpunarfyrirtækin — það var nú búið að taka nokkrar snerrur hér um það og þá styrki og stuðning sem okkur í minni hlutanum þykir vera dreginn fullmikið til baka og skilaboðin röng hvað það varðar, enda hefur í því samfélagi afar mikil gagnrýni verið sett fram. Í Fréttablaðinu frá því í gær líklega — nú týnir maður dögunum svolítið eða dagsetningunum í það minnsta — kemur fram að 13 fyrirtæki sem fengu styrki úr Tækniþróunarsjóði árið 2005 höfðu skilað ríkissjóði framlaginu tuttugufalt til fjörutíufalt til baka 2012, þannig að það sem ríkissjóður fékk í arð af þessari fjárfestingu, þ.e. styrkjum til Tækniþróunarsjóðs, mældist í tugum milljarða.

Í frumvarpinu sem liggur fyrir þinginu á framlagið að lækka töluvert mikið burt séð frá því við hvað er miðað, hvort við kjósum að sleppa árinu 2013 út en þá var ákveðið að hækka þetta verulega af því að við töldum, fyrrverandi ríkisstjórn, að við værum að síga upp á við og töldum að þetta væri árið sem við ættum að reyna að draga sem minnst úr, án þess þó að tapa því markmiði að sjálfsögðu, eins og allar ríkisstjórnir vilja, að ná hallalausum fjárlögum.

Það er líka boðuð lækkun á endurgreiðsluhlutfalli nýsköpunar- og þróunarverkefna úr 20% í 15%, sem hér er bent á að sé afar óheppilegt. Samtök iðnaðarins hafa gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir það að í stefnuyfirlýsingu hennar komi fram að hún leggi mikla áherslu á nýsköpun í öllum atvinnugreinum á sama tíma sem hún boðar þetta; og þeir telja það vera í hrópandi mótsögn við þessa stefnu. Þeirra svar er það að ríkisstjórnin sé að skera niður bestu og arðbærustu leiðina til að auka verðmætasköpun og skatttekjur ríkissjóðs. Þarna greinir okkur kannski á, eins og komið hefur fram, um hvernig best er að ná peningum inn í ríkissjóð og ekki bara okkur hér í minni hlutanum á þingi — augljóslega, því að þetta er ekki samið af okkur, það sem ég er hér að vitna í.

Davíð Lúðvíksson, forstöðumaður stefnumótunar og nýsköpunar hjá Samtökum iðnaðarins, vekur athygli á því að nú eru löndin allt í kringum okkur að bjóða framsæknum fyrirtækjum margvíslega fyrirgreiðslu og hvata ef þau flytja starfsemi sína til landanna. Hann bendir meðal annars á Bretland. Ég hvet ríkisstjórnina því enn og aftur til að huga að því á milli umræðna að breyta þessum styrkjum til Tækniþróunarsjóðs. Þetta er stór hluti gjaldeyristekna okkar, 20%, sem er í tækni- og hugverkageiranum. Og eins og rætt hefur verið um er það árangur okkar frábæra vísindafólks sem er að baki þeim auknu gjaldeyristekjum, eftir áralanga vinnu í rannsóknum og þróun verður allt það starf til þess að þetta á sér stað. Og þrátt fyrir að gefið hafi verið í núna árið 2013 þá var það líka gert 2010 þegar staða ríkisfjármála var ekkert sérstaklega góð. Hér hefur verið mikið talað um að fá að láni, en, eins og ég sagði í upphafi máls míns hvað þetta varðar, að ef arðurinn skilar sér í tugum milljarða til baka þá er það líklegast eitthvað sem vert er að fá að láni í stuttan tíma fremur en að koma í veg fyrir að hægt sé að stunda þessa vinnu.

Mig langar líka að fara aðeins ofan í aðra liði í þessu nefndaráliti og þarf kannski ekki að ræða mikið um það sem ríkisstjórnin hefur valið varðandi tekjuöflun. Við höfum oft rætt það og okkur greinir á um veiðileyfagjöld og ýmislegt annað. En að okkar mati er það hluti af ástæðunum fyrir því að erfiðara er að ná jöfnuði í ríkisfjármálum.

Hér var verið að ræða skráningargjöld í opinbera háskóla. Mér fannst svolítið sérkennileg umræða þar sem verið var að tala um að það væri hvati að borga gjöld, það væri hvati til að stunda nám ef maður þyrfti að borga meira fyrir það. Ég held ég hafi í gegnum tíðina flokkast í neðra þrepi millitekjumanneskju í launum og ég hef haldið aftur af mér í námi sem til dæmis er í boði hjá Endurmenntun Háskólans vegna þess að mér finnst það of dýrt, þannig að ég get nú ekki tekið undir það. Svo hef ég starfað sem náms- og starfsráðgjafi og þetta er í hróplegu ósamræmi við það sem komið hefur fram í samtölum mínum við nemendur sem margir hverjir, fullorðnir meðal annars, 24 til 25 ára gamalt fólk kannski, eru að koma inn í nám aftur og hafa ekki haft það neitt sérstaklega gott. Það fólk hefur ekki þetta aukna svigrúm — það er vinsælt orð — til að bæta við sig miklum eða háum skráningargjöldum. Svo er það auðvitað skilgreining hvað er hátt og hvað ekki þegar kemur að þessu.

Síðan er talað um að ganga á mörkuðu tekjustofnana. Í ljósi þess að hér er verið að vinna frumvarp um markaða tekjustofna í fjárlaganefnd þá hefur það viðgengist töluvert að hluta af þeim fjármunum sem hafa verið markaðar tekjur hefur verið ráðstafað beint í ríkissjóð og hefur verið gagnrýnt mjög af mörgum. Því á sama tíma hefur maður áhyggjur af því ef mörkuðu tekjurnar eru teknar af þessum stofnunum, samanber t.d. Atvinnuleysistryggingasjóð, að það verði undir geðþóttavilja stjórnmálamanna hverju sinni komið hvort og hvaða stofnanir lenda öðrum fremur undir hnífnum. Það er það sem flestir óttast og ég held að við verðum líka, eins og ég nefndi, að hafa samráð við þessa aðila þar sem við ætlum að taka niður, sérstaklega þegar kemur að atvinnulífinu. Það á ekki að gera eins og gert var núna að skera niður í Starfsendurhæfingarsjóði og öðru slíku einhliða án þess að ræða við lífeyrissjóði eða atvinnulífið um það óháð því hvernig staða sjóðsins er.

Mig langar líka að ræða fæðingarorlofið af því að ég held að mjög margir hafi verið afskaplega ánægðir með það. Ég man að þverpólitísk samstaða var um það mál þegar því var komið á, ég held það hafi verið Sjálfstæðisflokkurinn sem fór fyrir því máli á þeim tíma. Það frumvarp sem var lagt hér fram, það var líka almenn ánægja með það og ég held þetta sé vilji flestra. En þá komum við aftur að því að sumir vilja eingöngu hækka þakið, hafa háar greiðslur en færri mánuði, en ég tel það ekki skynsamlega leið að gera það eingöngu. Ég tel að við eigum að reyna að gera hvort tveggja. Það var markmið frumvarpsins að þetta fæðingarorlofskerfi yrði þannig að foreldrar stæðu jafnfætis í því, hvort sem væri móðir eða faðir.

Við höfum áður rætt það hér að samræma ætti fjölskyldu- og atvinnulíf og að konur jafnt sem karlar eigi að hafa tækifæri til að stunda atvinnu, þetta er hluti af því. Ég held að margar ástæður séu fyrir því hvernig þróunin hefur orðið undanfarin ár. Ég held að það sé ekki endilega almennur vilji, við þyrftum kannski að fá vinnumarkaðinn meira í lið með okkur. Auðvitað hefur hrunið haft áhrif, nema hvað, og þá frekar á þátttöku feðra. Oftast eru það konurnar sem velja að vera heima lengur vegna þess að þær eru á lægri launum. Þetta er því hvorki jafnræði fyrir foreldra né barnið og maður hefur áhyggjur af þessu ójafnræði hvað varðar alls konar réttindi kvenna, lífeyrisréttindi eða önnur réttindi sem fólk vinnur sér inn með þátttöku í atvinnulífinu. Sú staðreynd liggur þá fyrir að konur standa mun verr að vígi þegar þær eldast vegna þess að þær hafa ekki haft sömu tækifæri.

Þrátt fyrir að við stöndum framarlega hvað þessi mál varðar þá eigum við að leggja áherslu á að auka þetta jafnræði þannig að börnin njóti jafnra samvista við foreldra sína þegar þau eru lítil og auka um leið jafnræði beggja aðila til þátttöku á vinnumarkaðnum. Við eigum að sameinast um það en ekki að samþykkja þá mismunun sem á sér stað með kerfinu eins og það er í dag. Og samfélagið okkar er auðvitað markað af þessum ójöfnuði.

Mig langar líka aðeins að koma inn á það sem skiptir máli í þessu samhengi. Það er ekki bara niðurskurður á fæðingarorlofinu, við höfum verið að takast á við heilbrigðismálin, sem hér eru nefnd. Þá kemur manni í hug staða kvenna á landsbyggðinni þaðan sem ég kem. Í mínu kjördæmi er staðan mjög mismunandi, ég get nefnt Seyðisfjörð eða Húsavík, þar sem konur fara í burtu jafnvel töluvert löngu áður en þær eiga að fæða börn sín, vegna þess að heiðar eru erfiðar og sérstaklega á vetrum. Þess vegna var það ánægjulegt um daginn þegar hæstv. heilbrigðisráðherra kom í veg fyrir að sjúkrabílar legðust af alls staðar, þeir eru samt þrír sem á að leggja. Fyrir utan það að eiga langt að fara þá er þetta líka vinnutap fyrir báða aðila og ýmiss konar kostnaður. Þetta er kannski þessi grundvallarhugsun annars vegar í heilbrigðisþjónustunni og svo í fæðingarorlofskerfinu, af því að á sama tíma og við erum að glíma við þetta takast Landspítalinn eða Sjúkrahúsið á Akureyri á við aukið álag á fæðingargangi, því að það er nú orðið þannig að það má helst hvergi fæða nema þar, hvað sem okkur annars finnst um það.

Við eigum að forgangsraða hvað varðar þessa málaflokka og við eigum að lengja fæðingarorlofið. Það var talað um það hér, man ég, þegar þetta var rætt á sínum tíma, að þetta væri til framtíðar, þetta væri kosningaloforð o.s.frv. En það var líka árið 2000 þegar þetta var gert. Auðvitað er þetta fram í tímann því að þetta á að gerast hægt og rólega, þetta á ekki að gerast allt í einni beit. En við eigum að gleðjast yfir því að fólk vill fjölga sér, að til verði fullt af nýjum og yndislegum litlum Íslendingum, og þess vegna eigum við að lengja fæðingarorlofið hægt og rólega á sama tíma og við reynum að fá sveitarfélögin í lið með okkur hvað varðar úrræði fyrir börn í dagvistun.